Njarðvíkingar sigruðu á vormóti Júdósambands Íslands
Nú um helgina fór fram Vormót Júdósambands Íslands. Á mótinu voru 79 keppendur og margar snarpar viðureignir. Njarðvíkingar mættu með keppendur í þrjá elstu aldursflokkanna; 13 til 14 ára, 15 til 17ára og 18 til 20 ára.
Þrátt fyrir að vera ekki með neinn keppanda í 11 til 12 ára aldursflokki endaði liðið með flest verðlaun auk þess sem flestir meistararnir koma frá Njarðvík. Þetta var í annað sinn í röð sem Njarðvíkingar ná þeim árangri.
Í aldursflokknum 13 til 14 ára flokki sigraði Ingólfur Rögnvaldsson, bæði með fallegum köstum og fastatökum. Stefán Eías, liðsfélagi Ingólfs, fylgdi fast á hæla hans og varð annar eftir harða úrslitarimmu gegn Ingólfi. Telma Björt Vignisdóttir varð önnur í stúlknaflokki og sýndi að hún á framtíðina fyrir sér í greininni. Gunnar Örn Guðmundson og Daníel Árnason urðu þriðju í sitthvorum flokknum.
Í flokki 15 til 17ára sigruðu Njarðvíkingar þrjá þyngdarflokka af sex. Ægir Már Baldvinsson sigraði -60 kg flokkinn, Heiðrún Fjóla Pálsdóttir keppti þyngdarflokk upp fyrir sig en sigraði þann flokk nokkuð örugglega á köstum og uppgjafartökum.
Hinn ungi Halldór Matthías Ingvarsson kom öllum á óvart og sigraði +90 kg flokkinn þar sem hann er aðeins 15 ára gamall og á yngsta ári. Bjarni Darri Sigfússon varð annar í sínum flokki en það var ansi mikið afrek því hann keppti tvo þyngdarflokka upp fyrir sig þar sem hann keppti í -81kg flokki, en hann var aðeins 65 kg.
Í flokki 18 til 20 ára kepptu allir liðsmenn Njarðvíkur upp fyrir í aldursflokki. Þarna náðu Njarðvíkingar sínum besta árangri og komu allir sigurvegararnir í kvennaflokki úr Njarðvík. Catarina Chainho Costa varð þriðja, Jana Lind Erlendsdóttir varð önnur eftir frábæran úrslitabardaga við sigurvegara flokksins Heiðrúnu Fjólu Pálsdóttur.
Í karlaflokki sigraði Bjarni Darri Sigfússon sinn flokk örugglega og Ægir Már Baldvinsson varð þriðji í þeim flokki.