Njarðvíkingar mun betri
Njarðvíkingar hafa tekið forystuna í úrslitaeinvíginu gegn Skallagrím, 2-1, með stórsigri í dag 107-76. Allt stefndi í spennuleik en Brenton Birmingham kom heimamönnum á sporið og eftir það sáu gestirnir frá Borgarnesi aldrei til sólar.
George Byrd hélt uppteknum hætti og gerði fyrstu stig leiksins og kom Skallagrím í 0-2 en Byrd hefur skorað fyrstu körfuna í öllum þremur úrslitaleikjunum. Brenton Birmingham svaraði um hæl 2-2 og í stöðunni 7-8 Skallagrím í vil tók Brenton til sinna ráða og setti niður þrjá þrista í röð. Skallagrímur var aldrei langt undan og staðan 27-20 Njarðvík í vil að loknum 1. leikhluta og Brenton Birmingham kominn með 16 stig.
Jeb Ivey opnaði 2. leikhluta með þriggja stiga körfu og staðan 30-20 og í garð gekk frábær kafli hjá heimamönnum sem gerðu út um leikinn í 2. leikhluta. Innan skamms var staðan orðin 47-27 Njarðvík í vil en staðan í leikhléi var 60-37. Gestirnir reyndu 2-3 svæðisvörn á köflum en Njarðvíkingar voru of heitir fyrir utan og settu flest allt niður sem gafst.
Brenton var með 23 stig í hálfleik og Jeb Ivey 14 og Jóhann Árni 10. Hjá Skallagrím var Byrd með 12, Jovan 9 stig og 3 villur og Hafþór 3 villur.
Síðari hálfleikur var svo leikur kattarins að músinni en Njarðvíkurliðið í heild sinni átti góðan dag í dag og heldur 2-1 yfir í Borgarnes á mánudag. Takist Njarðvíkingum að sigra í Borgarnesi verða þeir Íslandsmeistarar.
VF-myndir/JBÓ