Njarðvíkingar lögðu topplið Hauka
Njarðvíkingar sóttu Hauka heim á Ásvelli í gærkvöld í 2. deild karla í knattspyrnu. Fyrir leikinn var Njarðvík í fjórða sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir liði Hauka.
Það voru Haukar sem byrjuðu leikinn betur og komust yfir á 8. mínútu. Fátt markvert gerðist eftir það í fyrri hálfleik, leikurinn fór aðallega fram á miðjunni og hvorugt lið náði yfirhöndinni.
Skömmu áður en flautað var til hálfleiks fengu Njarðvíkingar hornspyrnu og úr henni jafnaði Kenneth Hogg (44') og því gengu liðin jöfn til hálfleiks.
Það færðist meiri hiti og ákafi í leikinn eftir leikhlé og bæði lið fengu færi til að komast yfir. Njarðvíkingar fengu t.a.m. þrjár hornspyrnur í röð sem Haukar áttu í stökustu vandræðum með að koma frá.
Þegar komið var í uppbótartíma sauð upp úr og leikurinn fékk dramatískan endi. Á 93. mínútu kom sending fyrir mark Njarðvíkinga og Haukar heimtuðu víti en fengu ekki. Mínútu síðar fengu Njarðvíkingar hornspyrnu og upp úr henni vítaspyrnu og leikmaður Hauka rautt spjald. Það var fyrirliðinn, Marc McAusland, sem tók spyrnuna og tryggði Njarðvíki öll stigin (90'+7).
Eftir leikinn eru Njarðvíkingar í þriðja sæti með jafn mörg stig og Kórdrengir, sem mæta ÍR í dag, og stigi á eftir toppliði Hauka.