Njarðvíkingar lagðir að velli í Hveragerði. UMFG-stúlkur tapa fyrir KR.
Intersport-deildin
Njarðvík tapaði fyrir Hamri í Intersport-deildinni í kvöld, en leikurinn fór fram í Hveragerði. Lokastaðan var 79-76 Hamri í vil og áttu þeir sigurinn fyllilega skilinn. Heimamenn sýndu af sér mun meiri baráttu en Njarðvíkingar og leiddu mestallan leikinn þar til gestirnir náðu að jafna þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Leikmenn Hamars tóku þá við sér og náðu aftur forystunni og létu hana ekki af hendi.
Friðrik Ragnarsson var ekki ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld. „Þetta var alveg verðskuldað hjá Hamri. Það var eins og þá langaði að vinna þennan leik meira en okkur.“ Njarðvík hefur verið á góðri siglingu að undanförnu og unnið síðustu fimm leiki sína í deildinni og Hópbílabikarnum en áttu ekki góðan leik í kvöld. Þeir hafa að vísu leikið mjög stíft að undanförnu en Friðrik vill ekki meina að það hafi skipt miklu máli. „Við erum búnir að spila marga leiki undanfarið en ég held að þetta hafi verið meira viljaleysi hjá okkur“, sagði hann og bætti við að þessi leikur hafi verið eins og löðrungur í andlitið.
Brandon Woudstra var stigahæstur Njarðvíkinga í leiknum og skoraði 30 stig og Brenton Birmingham skoraði 17 stig. Í liði Hamars voru Chris Dade (21 stig), Faheem Nelson (16 stig og 13 fráköst) og Lárus Jónsson (20 stig) atkvæðamestir. Eftir sigurinn eru Hamarsmenn komnir upp að hlið Njarðvíkinga í deildinni með sex stig eftir fimm leiki.
Næsti leikur Njarðvíkur er á móti KR í fyrri leik liðanna í Hópbílabikarnum og fer hann fram á mánudaginn. Friðrik og hans menn verða væntanlega búnir að fara vel yfir leikinn í kvöld til að koma í veg fyrir að slík frammistaða endurtaki sig.
Á morgun lýkur fimmtu umferðinni með tveimur leikjum. Keflavík tekur á móti Snæfelli og topplið Grindavíkur fær Hauka í heimsókn. Báðir leikirnir hefjast kl. 19.15.
1. deild kvenna
Fimmtu umferð í 1. deild kvenna lauk með tapi Grindavíkur á heimavelli gegn KR-ingum. Lokatölur voru 45-58, gestunum í vil. Grindavíkurstúlkur byrjuðu vel en afleit skotnýting varð til þess að þær sigu aftur úr og því fór sem fór. Pétur Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, er að vonum ekki ánægður með sóknarleik sinna stúlkna. „Við vorum að spila góða vörn og berjast vel en þegar sjálfstraustið er ekki í lagi í sókninni vinnur maður ekki leikina.“ Hann sagði einnig að yrðu þær að taka sig saman í andlitinu og finna trúna á skotin sín og hann væri bjartsýnn á að það myndi gerast fyrir næstu leiki liðsins sem eru gegn ÍR í Hópbílabikarkeppninni í næstu viku.
Stigahæstar í liði Grindavíkur í kvöld voru Petrúnella Skúladóttir og Sólveig Gunnlaugsdóttir sem skoruðu 15 stig hvor en Sólveig tók auk þess 10 fráköst. Þá átti Harpa Hallgrímsdóttir góða innkomu og tók 12 fráköst.