Njarðvíkingar komnir í 4. sæti eftir stórsigur
Næsti leikur er í Njarðvík á föstudaginn við Aftureldingu
Njarðvíkingar unnu stórsigur 7:2 á Fjarðabyggð á Eskifirði í 4. umferð 2. deildar. Fyrsta markið kom á 11 mín og það gerði Stefán Birgir Jóhannesson fyrir Njarðvík. Við markið náðu Njarðvíkingar undirtökunum í leiknum og bættu við öðru marki á 33 mín þegar Bergþór Ingi Smárason skoraði stönginn inn eftir snögga sókn. Heimamenn náðu að minnka munin á 37 mín eftir hornspyrnu. Á 42 mín fékk markvörður Fjarðabyggðar beint rautt fyrir brot á Theodór Guðna langt fyrir utan vítateig. Staðan 2:1 fyrir Njarðvík í hálfleik.
Heimamenn mættu af krafti í seinni hálfleikinn og náðu að jafna á 47 mín. Njarðvíkingar náðu fljótt yfirhöndinni aftur og fóru að ógna marki heimamanna. Dæmd vítaspyrna á Fjarðarbyggð á 64 mínútu þegar brotið var á Andra Fannari í teignum, Theodór Guðni tók vítaspyrnuna og skoraði af öryggi. Bergþór Ingi bætti sínu öðru marki við á 72 mín og Sigurður Þór Hallgrímsson bætti við fjórða markinu á 77 mín, en hann kom inná á 70 mín. Á 84 mín var öðrum leikmanni heimamanna vikið af velli fyrir að slá Andra Fannar í andlitið, beint rautt. Bergþór Ingi fullkomnaði þrennuna á 84 mín og Krystian Wiktorowicz bætti við því sjöunda á 86 mín.
Með sigrinum eru Njarðvíkingar í fjórða sæti með átta stig tveimur stigum á eftir Magna sem er í efsta sætinu. Næsti leikur er á föstudaginn og þá kemur Afturelding i heimsókn en þeir sitja í öðru til þriðja sæti ásamt Vestra með níu stig.
Ljósmyndir af vef UMFN