Njarðvíkingar keyra upp hraðann og spila vörn gegn KR
Njarðvík-KR í bikarnum í kvöld
Það verður líklega líf í tuskunum í Ljónagryfjunni í kvöld, en þá taka heimamenn í Njarðvík á móti KR í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar í körfubolta karla. Síðasti stórleikur sem fram fór í Njarðvík fer sennilega í sögubækurnar og var stemningin í kofanum lík því sem best gerist í úrslitakeppninni.
KR er af flestum talið sterkasta lið landsins en Njarðvíkingar hafa á sterkum leikmönnum að skipa og eru til alls líklegir. Þarna verður boðið upp á bikarslag af bestu gerð.
Elvar Friðriksson bakvörður Njarðvíkinga hefur myndað eitrað tvíeiki ásamt Loga Gunnarssyni í vetur. Elvar segir KR-inga vera með sterkt lið og Njarðvíkingar verði að spila stífa vörn í leiknum í kvöld til þess að sigra.
„Þeir eru með reynslumikla menn þarna eins og Helga, Pavel og Brynjar þannig að við leggjum upp með að spila stífa vörn í kvöld og keyra upp hraðann, það er okkar helsti styrkleiki,“ segir Elvar. Hann segir að varnarleikurinn hafi ekki verið góður í leiknum gegn Keflavík á dögunum.
„Hefðum við spilað góða vörn gegn þeim hefðum við líklega náð meira forskoti í fyrri hálfleik, vegna þess að við hittum vel en svo í seinni hálfleik hættum við að hitta en vorum fastir fyrir utan þriggja stiga línuna, þannig við ætlum að sækja meira á körfuna og spila betri vörn gegn KR,“ segir Elvar en hann segir Njarðvíkinga búna að jafna sig eftir Keflavíkurleikinn og að allir séu klárir í slaginn.
Leikurinn hefst klukkan 18:00 að þessu sinni.
Njarðvíkingar hafa útbúið eftirfarandi myndband til þess að kynda undir sínum stuðningsmönnum.