Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Njarðvíkingar jöfnuðu einvígið við KR
Stefan Bonneau var hetja Njarðvíkinga í kvöld
Fimmtudagur 9. apríl 2015 kl. 21:11

Njarðvíkingar jöfnuðu einvígið við KR

Bonneau með hádramatíska sigurkörfu 2 sekúndum fyrir leikslok

Njarðvíkingar sigruðu KR í Ljónagryfjunni í kvöld með 1 stigi, 85-84, í æsispennandi leik þar sem að úrslitin réðust á lokasekúndum leiksins með frábærri þriggja stia körfu Stefan Bonneau. Þetta var annar leikur liðanna í undanúrslitum Domino's deildarinnar í körfubolta.

Njarðvíkingar komu grimmir til leiks í kvöld og ætluðu greinilega að þurrka burt allan vafa um að þeir ættu ekki erindi í KR sem fór illa með Njarðvíkinga í fyrsta leik liðanna. Heimamenn voru að finna sig vel fyrir utan þriggja stiga línuna í fyrsta leikhluta á meðan skot KR-inga voru ekki að detta. Stefan Bonneau og Snorri Hrafnkelsson voru öflugir sóknarmegin hjá Njarðvík, sem og fyrirliðinn Logi Gunnarsson og Njarðvík leiddi með 11 stigum eftir fyrsta leikhluta 23-12.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Logi Gunnarsson var í miklu stuði á báðum endum vallarins í fyrri hálfleik og stemmningin í algleymingi þegar Njarðvíkingar breyttu stöðunni i 40-26 þegar títt nefndur Stefan Bonneau smellti niður enn einum þristinum. KR-ingar löguðu stöðuna eilítið fyrir lok hálfleiksins en réðu þó ekkert við Bonneau og Loga sem höfðu skorað 19 og 15 stig áður en hálfleiksflautan gall. Helsti munurinn á liðunum var sá að nú hafði skotsýningin færst úr höndum KR-inga og Njarðvíkingar að raða niður körfunum.

Um miðbik 3. leikhluta fór að draga saman með liðunum og KR-ingar sóttu fast að heimamönnum sem að höfðu glatað forystunni hægt og bítandi. Skotin voru ekki að detta jafn títt og í fyrri hálfleik og þegar Finnur Atli Magnússon kom KR-ingum í 52-53 þegar rúmar 2 mínútur lifðu leikhlutans var farið að fara um marga í Njarðvíkurstúkunni en Finnur átti frábæra innkomu í leikhlutann og kveikti neista í KR-ingum sem leiddu inn í lokafjórðunginn með 4 stigum, 61-65. Munaði mikið um að Logi Gunnarsson skoraði ekki stig í leikhlutanum fyrir Njarðvík.

Lokaleikhlutinn var svo algjörlega í járnum þrátt fyrir að KR-ingar náðu alltaf að vera skrefinu á undan. Barist var um hvern einasta bolta og öllum körfum fagnað eins og um sigurkörfuna væri hreinlega að ræða. Það hefði mátt skera spennuna í húsinu með hníf og leikmenn liðanna gerðust sekir um ýmis konar klaufaskap, tapaðir boltar og þá klikkaði Mirko Virijevic á nánast ókeypis troðslutækifæri sem hefði jafnað leikinn en í staðinn voru það KR-ingar sem héldu 2ja stiga forystu 82-84 þegar 2 mínútur lifðu leiks. KR-ingar fengu nokkur tækifæri til að breikka bilið á milli liðanna áður en Logi Gunnarsson klikkaði úr sniðskoti en til allrar hamingju fyrir heimamenn gerðist Michael Craion sekur um sams konar glæp hinum megin á vellinum og staðan enn 82-84 þegar 7 sekúndur voru eftir á klukkunni. Það var svo eins og í Disney mynd þegar Stefan Bonneau setti niður þriggja stiga körfu eftir að hafa losað sig snilldarlega frá varnarmanni sínum þegar 2 sekúndur lifðu leiks og þakið ætlaði hreinlega að rifna af húsinu. Kr-ingar fengu lokatækifæri til að hrifsa sigurinn en allt kom fyrir ekki og Njarðvíkingar fögnuðu ógurlega í leikslok.

Stefan Bonneau sýndi það og sannaði að síðasti leikur var frávik af hans hálfu og á venjulegum degi er ekki maður á landinu sem getur stöðvað piltinn nema þá helst lögreglan á vel merktum bíl með vegatálma sér til halds og trausts. Sannarlega frábær leikmaður. 

Tölfræði leiksins:

Njarðvík:

Stefan Bonneau 34/8 fráköst/5 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 15/4 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 12/7 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 9/6 stoðsendingar, Snorri Hrafnkelsson 9, Ólafur Helgi Jónsson 4, Maciej Stanislav Baginski 2/4 fráköst, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Ágúst Orrason 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Magnús Már Traustason 0, Ragnar Helgi Friðriksson 0.



KR:

Michael Craion 28/9 fráköst/7 stoðsendingar/4 varin skot, Helgi Már Magnússon 20/5 fráköst, Darri Hilmarsson 11/5 fráköst/5 stolnir, Finnur Atli Magnússon 10, Björn Kristjánsson 8, Brynjar Þór Björnsson 7/5 fráköst/5 stoðsendingar, Illugi Steingrímsson 0, Vilhjálmur Kári Jensson 0, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 0, Þorgeir Kristinn Blöndal 0, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 0/4 varin skot, Darri Hilmarsson 0.

Liðin mætast í þriðja sinn á sunnudagskvöldið í DHL höll KR-inga kl. 19:15