Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriðjudagur 16. apríl 2002 kl. 23:40

Njarðvíkingar Íslandsmeistarar í körfu 2002

Njarðvíkingar sigruðu Keflvíkinga 93:102 í 3. leik liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Keflvíkingar leiddu í hálfleik 62:51. Njarðvíkingar tryggðu sér þar með titilinn en þeir „sópuðu“ Keflvíkinga 3-0. Páll Kristinsson var bestur í liði Njarðvíkinga með 23 stig, 10 fráköst og 3 varin skot.Keflvíkingar byrjuðu leikinn betur en þeir tefldu fram nýju byrjunarliði(Falur, Gaui, Gunni E., Damon og Magnús). Keflvíkingar leiddu í hálfleik 62:51 eftir að hafa verið sterkara liðið allan hálfleikinn.
Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn mjög vel og svo virtist sem þeir ætluðu að ganga frá Njarðvíkingum. Svo var þó ekki því Njarðvíkingar hertu vörnina sína og byrjuðu að raða körfum utan af velli ásamt því að skora töluvert inní teig. Lokamínúturnar voru æsispennandi en eftir að Keflvíkingar fengu á sig afdrifaríka tæknivillu var aldrei spurning hvar sigurinn myndi enda. Njarðvíkingar voru einfaldlega betri á endasprettinum eins og í 2. leiknum og reynslan skóp þennan sigur og Njarðvíkingar geta fagnað 12. Íslandsmeistaratitli sínum og 3. titlinum á þessu tímabili.
Keflvíkingar mega þó vera sáttir við sitt í vetur enda komu þeir öllum á óvart með því að komast í úrslit með svo ungt og lágvaxið lið.
Bestur hjá Njarðvík var Páll Kristinsson með 23 stig, 10 fráköst og 3 varin skot. Brenton Birmingham var einnig drjúgur og setti niður 21 stig. Logi Gunnarsson var með 19 stig.
Hjá Keflvíkingum var Damon Johnson bestur með 35 stig, 18 fráköst og 7 stolna bolta en Guðjón Skúlason átti einnig ágætis syrpur og skoraði 19 stig. Aðrir voru með minna.

Maður leiksins: Páll Kristinsson, Njarðvík
Setning leiksins: „Njarðvíkingar voru betri á lokasprettinum“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024