Njarðvíkingar í úrslit: Ivey steig upp svo um munaði
Jeb Ivey fann fjölina að nýju í kvöld eftir að hafa verið rétt skugginn af sjálfum sér í undanúrslitarimmum Njarðvíkur og Grindavíkur. Þorleifur Ólafsson hafði verið að gera Ivey lífið leitt í fyrstu fjórum leikjunum en Bandaríkjamaðurinn knái datt í gírinn í kvöld og setti niður 20 stig fyrir Njarðvík ásamt því að spila vel uppi samherja sína. Grindvíkingar söknuðu sárlega fyrirliða síns í kvöld en Páll Axel Vilbergsson var settur á ís þar sem Brenton Birmingham var að leika fantavörn á Pál. Njarðvíkingar unnu stóran og sanngjarnan sigur á Grindvíkingum í kvöld, 93-70, og munu því leika gegn KR í úrslitum Iceland Express deildarinnar en KR lagði Snæfell 76-74 eftir framlengdan leik í DHL-Höllinni í kvöld.
Njarðvíkingar komu vel stemmdir til leiks og þá sér í lagi miðherjar liðsins en þeir áttu miður góðan dag í fjórða leik liðanna í Röstinni. Igor Beljanski fór mikinn fyrir Njarðvíkinga sem komust fljótt í 12-5 og svo 16-9. Páll Axel Vilbergsson gerði fyrstu og einu stigin sín í leiknum í fyrsta leikhluta er hann minnkaði muninn í 16-11 og eftir það sást lítið sem ekkert til þessa frábæra leikmanns en skuggi hans bar hann ofurliði í kvöld en það var Brenton Birmingham sem lék fantavörn á Pál.
Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 26-15 Njarðvíkingum í vil og höfðu þeir frumkvæðið í leiknum. Þorleifur Ólafsson var manna líflegastur í Grindavíkurliðinu og barðist af miklum krafti en Grindvíkingar áttu við sama vandamálið að stríða og í fyrri leikjum, leikmenn af bekknum náðu ekki að komast í takt við leikinn á meðan varamenn Njarðvíkinga voru að koma sterkir inn. Egill Jónasson átti flottar innkomur í kvöld og tróð til hægri og vinstri og bara þegar honum sýndist, þá var hann einnig drjúgur í vörninni og varði fjöldan allan af skotum.
Liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 45-36 Njarðvíkingum í vil þar sem Jóhann Árni Ólafsson kveikti í sínum mönnum með flautukörfu eftir mikla baráttu í Grindavíkurteignum. Jeb Ivey var kominn með 15 stig í hálfleik en Adam Darboe hafði gert 9 fyrir Njarðvík. Þeir Friðrik Stefánsson og Páll Kristinsson voru báðir komnir með þrjár villur í hálfleik.
Þorleifur Ólafsson var allt í öllu í Grindavíkurliðinu í þriðja leikhluta og enn bólaði ekkert á Páli Axeli. Þorleifur minnkaði muninn í 51-47 og síðar í 55-53 en þá voru um þrjár mínútur eftir af þriðja leikhluta og Njarðvíkingar hrukku í gang. Jeb Ivey setti niður þriggja stiga körfu þegar 30 sekúndur voru eftir af leikhlutanum og breytti stöðunni í 64-55 en Jonathan Griffin gerði tvö síðustu stig leikhlutans og staðan 64-57 fyrir lokaleikhlutann.
Guðmundur Jónsson lagði línurnar fyrir Njarðvíkinga með þriggja stiga körfu í upphafi fjórða leikhluta, 67-57 og Egill Jónasson var fyrnasterkur fyrir Njarðvík í lokaleikhlutanum. Fyrstu fjórar mínúturnar í fjórða leikhluta gerðu Njarðvíkingar 11 stig gegn einu frá Grindavík og lögðu þar með grunninn að sæti sínu í úrslitum Iceland Express deildarinnar.
Þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka brugðu félagarnir Jeb Ivey og Egill Jónasson á leik sem í þrígang endaði með viðstöðulausri körfu og troðslu og öðrum eins sirkusatriðum hjá Njarðvíkingum og staðan orðin 83-63 Njarðvíkingum í vil og Grindvíkingar komnir í sumarfrí.
Lokatölur voru svo 93-70 eins og áður greinir eftir frábæran síðari hálfleik heimamanna. Grindvíkingar veittu Íslandsmeisturunum verðugu mótspyrnu í undanúrslitunum eftir brösugt gengi í deildarkeppninni og ljóst að mikið býr í þeim gulu þó þeir hafi ekki dottið á sinn besta leik í dag.
Friðrik Stefánsson og Jeb Ivey gerðu báðir 20 stig fyrir Njarðvíkinga í dag og Igor Beljanski bætti við 18. Hjá Grindavík var Jonathan Griffin með 20 stig en Páll Axel Vilbergsson gerði aðeins tvö stig í leiknum.
Njarðvíkingar munu því leika til úrslita gegn KR og verður fyrsti leikur liðanna í Ljónagryfjunni mánudaginn 9. apríl þar sem Njarðvíkingar hafa heimavallarréttinn.
Gangur leiksins:
6-3, 16-9,26-15
28-19,37-30,45-35
49-39,55-49,64-57
73-58,81-63,93-70