Njarðvíkingar í úrslit í Geysis bikarnum
Njarðvíkingar eru komnir í úrslit Geysis-bikarsins í körfubolta eftir góðan sigur á KR-ingum í Laugardalshöllinni í kvöld. Lokatölur 81-72 og þeir grænu voru í forystusætinu allan tímann. Logi Gunnarsson sem er að verða 38 ára sýndi mátt sinn og meginn og setti 16 stig, þar af fjóra þrista og mikilvægar körfur í blálokin. En hann var ekki einn því félagar hans léku flestir vel og uppskáru góðan sigur.
KR-ingar byrjuðu betur í blábyrjun og leiddu 18-13 eftir fyrsta leikhluta en Njarðvíkingar voru yfir í hálfleik 32-39. Þeir gáfu þá forystu ekkert eftir og það voru margir að skila góðu framlagi, Jeb Yvey, Ólafur Helgi, Eric Katenda og Maciek Baginski að ógleymdum Elvari Má Friðrikssyni. Þessi kjarni leikmanna hefur komið Njarðvíkurliðinu á toppinn í Domino’s deildinni og í úrslit Geysis-bikarkeppninnar.
Við vissum að við yrðum að leika vel gegn besta liði Íslands síðustu fimm ár. Það var sturlað að sjá svona marga stuðningsmenn í Höllinni, með mikinn meirihluta þar,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga.
Njarðvíkingar mæta Stjörnunni sem van ÍR. Stjarnan hefur farið mikinn og ekki tapað leik í langan tíma. Það má því búast við mögnuðum úrslitaleik í Höllinni á laugardag.
Njarðvíkingar eru næst sigursælasta bikarlið landsins, hafa unnið 8 titla, síðast 2005.
KR-Njarðvík 72-81 (18-13, 14-26, 15-18, 25-24)
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 18/6 fráköst/5 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 16, Eric Katenda 15/11 fráköst, Jeb Ivey 14/5 fráköst/6 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 8/6 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 7, Mario Matasovic 3/5 fráköst, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Snjólfur Marel Stefánsson 0, Kristinn Pálsson 0, Veigar Páll Alexandersson 0, Jon Arnor Sverrisson 0.
KR: Kristófer Acox 22/6 fráköst, Julian Boyd 18/10 fráköst, Jón Arnór Stefánsson 16, Björn Kristjánsson 6/5 stoðsendingar, Finnur Atli Magnússon 4, Helgi Már Magnússon 4, Orri Hilmarsson 2, Ólafur Þorri Sigurjónsson 0, Emil Barja 0, Vilhjálmur Kári Jensson 0, Pavel Ermolinskij 0/6 fráköst/7 stoðsendingar, Sigurður Á. Þorvaldsson 0.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Leifur S. Gardarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson
Áhorfendur: 1100