Njarðvíkingar í undanúrslit og mæta KR!
Keflvíkingar farnir í sumarfrí eftir hræðilegan síðari hálfleik í Hafnarfirði
Tveimur oddaleikum í 8 liða úrslitum Domino´s deildarinnar er lokið þar sem að Njarðvíkingar báru sigurorð af Stjörnunni í Ljónagryfjunni 92-73 og Keflavík lá fyrir Haukum á útivelli, 96-79. Þar með eru Njarðvíkingar komnir í undanúrslit en Keflvíkingar fara snemma í sumafrí 4. árið í röð.
Í Njarðvík seldist upp á leik heimamann gegn Stjörnunni og úr varð rosalegur leikur eins og öll serían hefur verið. Jafnt var með liðunum í fyrsta leikhluta en Njarðvíkingar fóru á kostum í öðrum leikhluta og sigldu inn í hálfleik með 12 stiga forskot en varnarleikur heimamanna var hreint út sagt magnaður og skilaði þeim forystunni skuldlaust.
Njarðvíkingar héldu Stjörnumönnum þægilega frá sér i þriðja leikhluta allt þar til í restina að Stjarnan náði að saxa á forskotið niður í 6 stig áður en leikhlutinn var allur.
Njarðvíkingar tóku ógrynni af sóknarfráköstum sem að átti eftir að vega þungt því að öll aukafæri á sóknartilraunum skilaði heimamönnum stigum sem töldu grimmt. Róðurinn varð svo Stjörnumönnum ofviða um miðbik leikhlutans og Njarðvíkingar spiluðu skynsamlega úr sínum sóknaraðgerðum og sigldu sigrinum heim og var fögnuður þeirra ósvikinn í leikslok enda hefur rimma þessara liða tekið mjög á bæði lið.
Stefan Bonneau var stigahæstur að venju hjá Njarðvík með 37 stig og þá skoraði Logi Gunnarsson 17.
Njarðvíkinga bíður annað verðugt verkefni í næstu umferð, að mæta KR-ingum í undanúrslitum og hefst sú rimma þann 5 apríl, eða n.k. mánudagskvöld í DHL höllinni.
Það verður að taka fram að stemmningin í Njarðvík í kvöld var hreint út sagt stórkostleg. Stuðningsmenn Njarðvíkur studdu liðið af öllum sínum mætti og svoru svo sannarlega hinn svokallaði 6. maður liðsins á vellinum í kvöld.
Njarðvíkingar sigurreifir í leikslok - mynd: karfan.is
Keflvíkingar eru farnir í sumarfrí eftir stórt tap gegn Haukum í Hafnarfirði í dag. Fyrri hálfleikurinn spilaðist vel fyrir Keflvíkinga sem leiddu inn í hálfleikinn og voru komnir með 8 leikmenn á blað. Sóknin rúllaði vel og stemmningin ágæt bæði inná vellinum sem og inni á vellinum.
Eitthvað hefur þó orðið eftir inni í klefa í hálfleik því að Keflvíkingar voru heillum horfnir í síðari hálfleik. Haukarnir einfaldlega rúlluðu yfir þá og Keflvíkingar gátu ekki keypt sér körfu lungann úr þriðja leikhluta. Haukarnir náðu upp 16 stiga forystu sem að Keflavík tókst að minnka niður i 10 stig fyrir síðasta leikhlutann með ágætri pressuvörn.
Haukarnir kláruðu Keflavík svo með skotsýningu í 4. leikhluta þar sem að liðið sýndi allar sínar bestu hliðar. Allt of margir lykilmenn í liði Keflavíkur stimpluðu sig ekki til leiks í 40 mínútur í dag en óhætt er að fullyrða að betra liðið sigraði einvígið.
Kári Jónsson tætir vörn Keflavíkur í sig í dag -mynd: karfan.is
Svo fór að Haukar sigruðu með 17 stiga mun og tryggðu sér þar með sæti í undanúrslitum í fyrsta skipti í 15 ár og urðu annað liðið í sögu körfuboltans á Íslandi til að koma tilbaka eftir að hafa verið 0-2 undir í seríu.
Davon Usher var stigahæstur Keflvíkinga með 16 stig og þá átti Andrés Kristleifsson fínan leik með 15 stig.