Njarðvíkingar í harðri baráttu um deildarmeistaratitilinn
Mikilvægur leikur hjá Grindavík í kvöld
Njarðvík og Keflavík unnu bæði sína leiki í gær í Subway-deild karla í körfuknattleik. Njarðvík lagði botnlið KR og Keflavík vann Hött á Egilsstöðum.
Njarðvík og Valur berjast um deildarmeistaratitilinn og eru jöfn að stigum þegar tvær umferðir eru eftir. Liðin mætast í næstu umferð og sá leikur gæti ráðið úrslitum deildarkeppninnar.
Keflavík vann loks sigur eftir mikil vandræði í síðustu leikjum. Mikilvæg stig fyrir Keflvíkinga sem eru í þriðja sæti, jafnir Haukum að stigum.
Grindvíkingar mæta Blikum í kvöld en bæði lið eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni en með sigri eru Grindvíkingar nánast búnir að tryggja sig.
KR - Njarðvík 101:120
(24:29, 29:20, 24:35, 24:36)
Leikur Njarðvíkur og KR var jafn framan af og KR-ingar leiddu með fjórum stigum í hálfleik (53:49). Njarðvíkingar tóku stjórnina í seinni hálfleik og lönduðu nítján stiga sigri að lokum (101:120).
Njarðvík: Dedrick Deon Basile 28, Nicolas Richotti 28/7 stoðsendingar, Mario Matasovic 20/7 fráköst, Lisandro Rasio 18/9 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 8, Logi Gunnarsson 8, Jose Ignacio Martin Monzon 7/5 fráköst, Oddur Rúnar Kristjánsson 3, Jan Baginski 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Haukur Helgi Pálsson 0, Ólafur Helgi Jónsson 0.
Höttur - Keflavík 84:89
(26:31, 21:20, 17:21, 20:17)
Halldór Garðar Hermannsson átti fínan leik í gær þegar hann leiddi Keflavík til sigurs. Keflvíkingar hafa verið höfuðlaus her upp á síðkast á meðan Hörður Axel Vilhjálmsson hefur verið fjarverandi vegna meiðsla. Halldór steig upp og gerði það sem gera þurfti.
Keflavík: Halldór Garðar Hermannsson 19, Eric Ayala 15/4 fráköst, David Okeke 13/4 fráköst, Igor Maric 13/5 fráköst, Dominykas Milka 12/12 fráköst, Valur Orri Valsson 6/6 stoðsendingar, Jaka Brodnik 6, Magnús Pétursson 5, Ólafur Ingi Styrmisson 0, Nikola Orelj 0, Yngvi Freyr Óskarsson 0, Arnór Sveinsson 0.