Njarðvíkingar í botnbaráttu í Inkasso deildinni

Njarðvíkingar hafa verið í basli í Inkasso-deildinni í síðustu leikjum og enduðu með 4-1 tapi í síðasta leik þeirra í fyrri umferðinni gegn Selfossi.

Selfyssingar skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins en Magnús Þór Magnússon minnkaði muninn fyrir þá grænu og síðan fékk Njarðvík víti og gat þannig minnkað muninn í eitt mark. Andri Fannar Freysson fór á vítalínuna en náði ekki að skora, setti boltann í slánna. Heimamenn bættu svo við marki í lokin.

Rafn Markús Vilberegsson, þjálfari Njarðvíkinga segir að það hafi verið svekkjandi að tapa leiknum og fá ekkert út úr honum því liðið hafi fengið mörg færi. „En þú vinnur ekki þegar þú færð fjögur á þig,“ sagði hann.

Njarðvíkingar eru í þriðja neðsta sæti Inkasso-deildarinnar með 10 stig, þremur meira en ÍR og fjórum fleiri en Magni en bæði liðin eiga leik til góða. UMFN á næsta leik gegn Þrótt Reykjavík í fyrsta leik seinni umferðar 20. júlí nk.

Hér er Brynjar Freyr á ferðinni á Njarðtaksvellinum. Njarðvíkingar eru í 3. neðsta sæti deildarinnar eftir fyrri umferðina. VF-mynd/árniþór.