Njarðvíkingar í bikarúrslitum í kvöld - fer fáni upp á vegg?
Njarðvík leikur til VÍS-bikarúrslita í körfubolta í dag gegn Stjörnunni en liðin mætast kl. 19:45 í Smáranum í Kópavogi. Ekki mátti miklu muna að Njarðvíkingum tækist að hafa tvö lið í úrslitum þar sem Ljónynjurnar töpuðu naumlega gegn Fjölni í undanúrslitum.
Leikur kvöldsins verður sautjándi bikarúrslitaleikur félagsins í sögunni en keppnin hófst 1970 og Njarðvík lék sinn fyrsta bikarúrslitaleik árið 1976 gegn Ármanni. Ármenningar höfðu betur það árið 98-89 en fyrsti titill okkar í bikarnum kom í hús árið 1987 eftir 91-69 sigur gegn Haukum.
Njarðvík hefur leikið næstoftast til bikarúrslita allra félaga í landinu eða 16 sinnum og í kvöld fer sautjándi leikurinn í bækurnar. Vinningshlutfallið í úrslitaleikjunum er 50% eða 8-8.
Aðeins tvö félög hafa ekki tapað bikarúrslitaleik en það eru andstæðingar UMFN frá Garðabæ, Stjarnan, sem eru á 5-0 í bikarúrslitum og svo Fram sem unnu sinn eina bikarúrslitaleik sem þeir spiluðu árið 1982 þegar þeir unnu KR 68-66.
Eins og mörgum gæti verið kunnugt um þá er þetta bikarkeppnin frá síðustu leiktíð. Vegna heimsfaraldurs COVID-19 var ekki hægt að ljúka bikarkeppninni á síðasta tímabili og því ákveðið að hafa hana fyrir komandi leiktíð 2021-2022.
Logi Gunnarsson fer fyrir sterku Njarðvíkurliði sem skartar nýjum þjálfara og leikmönnum og hafa sýnt að þeir verða í titilbaráttu í vetur. Bikarúrslit í september er eitthvað stórt til að byrja á en Logi fagnaði fertugsafmæli sínu í byrjun mánaðar en virðist vera í fínu formi ennþá.
„Við viljum þá fáum við fána upp á vegg, það er ekkert flóknara,“ segir Logi.
Miðasala fyrir leikinn í kvöld er inni á Stubbur-app og ráð að tryggja sér miða sem allra fyrst þar sem báðum liðum er úthlutað takmörkuðu magni miða á leikinn.
Leikur kvöldsins verður í beinni á RÚV2.