Njarðvíkingar í 1. deild eftir dramatískan leik gegn Reyni
Njarðvíkingar tryggðu sér sæti í 1. deild að ári eftir dramatískan leik í Sandgerði í dag. Úrslit leiksins urðu 2-2 en það dugði Njarðvík til að hreppa annað sæti 2. deildar, fá silfurpening um hálsinn og sæti í 1. deild að ári. Hefðu Reynismenn hins vegar sigrað í leiknum hefðu þeir farið upp í stað Njarðvíkinga.
Dramatíkin hófst strax á 1. mínútu þegar markmanni Njaðvíkur, Ingvari Jónssyni, var vísað af leikvelli með rautt spjald eftir 47 sekúndna leik. Dæmd var vítaspyrna sem varamarkvörðurinn Almar Elí Færseth varði glæsilega.
Reynismenn komust yfir í lok fyrri hálfleiks eftir að aukaspyrna Sinisa Valdimars Kekic endaði í marki Njarðvíkina. Óverjandi skot.
Njarðvíkingar komu beittir til síðari hálfleiks og náðu að jafna leikinn á 53. mínútu. Ísak Örn Þórðarson skoraði þá eftir að hafa fengið boltann úr aukaspyrnu frá Kristni Björnssyni fyrirliða. Njarðvíkingar komust yfir á 83. mínútu eftir vítaspyrnu sem Rafn Markús Vilbergsson skoraði úr af öryggi. Njarðvíkingar gerðu síðan sjálfsmark eftir hornspyrnu Reynismanna á lokamínútu leiksins.
Ljósmyndir koma í myndasafn hér á vf.is síðar í kvöld og einnig er væntanlegt myndband með öllum mörkunum í leiknum hér á vefinn síðar í kvöld og viðtölum við þjálfara og leikmenn.