Njarðvíkingar ganga stoltir frá borði
Njarðvík þurfti að láta í minni pokann fyrir KR í 16 liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu þegar liðin mættust á Rafholtsvellinum í gærkvöld. Njarðvíkingar voru skipulagðir í vörninni og stigu ekki feilspor en sigurmark KR kom undir lok leiksins eftir frábært einstaklingsframtak.
Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og sókn þeirra dundi á gestunum fyrstu mínúturnar, fengu þrjár hornspyrnur áður en KR-ingar náðu áttum. Eftir þessa hörkubyrjun kom KR aðeins til baka og náði að komast betur inn í leikinn en Njarðvíkingar féllu aftar á völlinn, léku agaðan varnarleik og beittu skyndisóknum sem ollu usla í KR-vörninni. Fyrri hálfleikur var frekar tilþrifalítill og fór lítið fyrir gæðum, var barningur af beggja hálfu.
Í seinni hálfleik léku gestirnir undan vindi og sókn þeirra þyngdist. Ekkert virtist bíta á vörn Njarðvíkinga sem lék sem einn maður og stóð sig með eindæmum vel. Áfram voru skyndisóknir heimamanna skæðar og þær urðu tíðari og vantaði nokkrum sinnum bara herslumuninn á að koma boltanum í netið. Það var því algerlega upp úr þurru að KR komst yfir þegar Hallur Hansson náði góðu skoti sem hafnaði í stönginni og inn (84'). Ótrúlega svekkjandi að fá mark á sig svona seint í leiknum eftir þvílíka baráttu.
Það er erfitt að gera upp við sig hverjir stóðu upp úr í liði Njarðvíkur í gær en heilt yfir á öll vörnin hrós skilið fyrir frábæra frammistöðu og svo voru hraðar skyndisóknir þeirra oft vel útfærðar og, eins og fyrr segir, stórhættulegar. Stórt hrós á allt Njarðvíkurliðið og stuðningsfólk þeirra.
Robert Blakala, markvörður Njarðvíkinga, var nálægt því að verða senuþjófur kvöldsins þegar hann mætti fram í sókina í upptótartíma og náði þrususkalla eftir hornspyrnu að marki KR, markvörður þeirra náði með herkjum að verja í aðra hornspyrnu. |
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum í gær og náði myndum sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni. Viðtal við Hólmar Örn Rúnarsson eftir leik er í spilararanum hér að neðan.