Njarðvíkingar felldu Stólana
Njarðvíkingar unnu góðan sigur á Tindastóli í Ljónagryfjunni í kvöld, 87-75, og felldu Sauðkræklinga með því niður í 1. deild.
Stólarnir léku af miklum krafti í upphafi leiks enda að berjast fyrir lífi sínu og leiddu framan af. Þeir höfðu forystu eftir fyrsta fjórðung, 24-28, en Njarðvíkingar voru fljótir að ná yfirhöndinni í 2. leikhluta. Þeir náðu átta stiga forskoti, 39-31 með því að loka á gestina með þéttri svæðisvörn, en náðu ekki að hrista gestina af sér.
Staðan í hálfleik var 43-39 en Stólarnir komu sterkir inn á ný í 3. leikhluta. Með áræðni og baráttu héngu þeir inni í leiknum og jöfnuðu loks þegar örskammt var eftir af leikhlutanum. Ólafur Aron Ingvason, sem átti skínandi leik í kvöld, negldi niður 3ja stiga skoti af löngu færi um leið og flautið gall og breytti stöðunni í 63-60. Njarðvíkingar hafa verið ansi drjúgir á flautukörfunum í vetur og geta þakkað þeim mörg stigin.
Ólafur opnaði síðasta leikhlutann með góðri körfu og jók muninn í 5 stig og má segja að þá hafi allur vindur verið úr Tindastólsmönnum. Lykilmenn þeirra voru orðnir þreyttir og Njarðvíkingar sigu sífellt lengra framúr og fögnuðu verðskulduðum sigri.
Friðrik Stefánsson var afar drjúgur í kvöld og gerði 16 stig og tók 14 fráköst ásamt því að standa sína pligt í vörninni og Páll Kristinsson var líka drjúgur. Þá er vert að geta þess að Matti Sayman gaf 15 stoðsendingar og var sterkur í fráköstum og vörn þó hann hafi haldið sig til hlés í stigaskorun.
„Það er alltaf erfitt að leika gegn liði sem berst fyrir lífi sínu í deildinni,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, og var ánægður með leik sinna manna í kvöld. „En þeir voru orðnir þreyttir í restina og svo kveikti Óli í sér með „Buzzernum“ og var virkilega öflugur á lokakaflanum.“
VF-myndir/Þorgils