Njarðvíkingar fallnir í 2. deild
Njarðvíkingar eru fallnir í 2. deild eftir tap gegn Gróttu á heimavelli í gær í Inkasso-deildinni í knattspyrnu. Lokatölur 1:2 eftir að Njarðvíkingar höfðu komist yfir en fengu jöfnunarmark í andlitið mínútu síðar. Neðsta sæti deildarinnar niðurstaðan og fall.
„Það er einfaldlega bara grátlegt eftir þessa frábæru upprisu hjá okkur frá því að vera fallbaráttulið í mörg ár í 2.deildinni og stíga upp í það að rústa 2. deildinni hitteðfyrra og frábærir í fyrra að þá gekk þetta ekki í sumar. Einhvernveginn var þetta oft stöngin út í staðin fyrir að vera stöngin inn eins og síðustu tvö ár og við höfum verið að gera vel en þetta er niðurstaðan og hún er erfið þar sem við ætluðum okkur stærri hluti. Grunn markmiðið var að halda sér í deildinni og vonandi gera betur en það náðist því miður ekki,“ sagði Rafn Markús Vilbergsson þjálfari Njarðvíkur eftir leik við fotbolta.net.
Atli Geir Gunnarsson skoraði fyrsta mark leiksins og kom Njarðvík í forystu en adam var ekki lengi í paradís því Grótta skoraði jöfnunarmark í næstu sókn, magnað skot af löngu færi hjá Valtý Má Michaelssyni söng í samskeytunum, óverandi fyrir markvörð UMFN.
Gestirnir bættu svo við marki í síðari hálfleik og sendu Njarðvíkinga endanlega niður í 2. deild.
Nágrannar þeirra úr Keflavík fóru sneypuför til Hafnarfjarðar og töpuðu 3:1 fyrir Haukum og voru mjög slakir.
Hér lætur Valtýr Már skotið ríða af í jöfnunarmarki Gróttu.