Njarðvíkingar færast upp töfluna
Njarðvík sigraði sinn annan leik í röð og nú gegn Dalvík/Reyni á Njarðtaksvellinum í 2. deild karla í fótbolta í gær. Njarðvíkingar byrjuðu leikinn vel og voru mjög líflegir. Eina mark leiksins kom á 14. mínútu þegar Ólafur Jón Jónsson lagði boltann laglega í markið. Stuttu seinna dæmdi dómarinn mark af Garðari Sigurðssyni en hann átti að hafa brotið á markverði gestanna.
Gestirnir sóttu heldur meira undan vindinum í seinni hálfleik en án þess að eiga nein hættulega færi. Sóknir Njarðvíkinga voru hættulegar og hefðu átt að skila mörkum. Gott skallamark Ísaks var dæmt af um miðjan seinni hálfleik vegna rangstöðu sem var þó tæp. Vörn Njarðvíkinga hélt út mikla pressu gestanna í blálokin en þá fengu þeir einar þrjár hornspyrnur.
Nýji leikmaðurinn Austin Mcintosh lék sinn fyrsta leik fyrir Njarðvík og stóð sig vel í vörninni. Þá kom Ísak Örn Þórðarson inná í seinni hálfleik og var sprækur. Næsti leikur Njarðvíkinga er gegn toppliði KV á KR velli á föstudaginn eftir Verslunarmannahelgi.