Njarðvíkingar fá öflugan leikmann
Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, eða Dalla eins og hún er jafnan kölluð, hefur samið við kvennalið Njarðvíkur og mun leika með liðinu á komandi tímabili. www.umfn.is greinir frá.
Dalla, sem er tvítug að aldri, er upprunalega frá Kormáki á Hvammstanga, en undanfarin ár hefur hún leikið með liði Laugdæla í 1. deildinni og jafnan verið besti maður liðsins.
Þá hefur hún leikið með yngri landsliðum Íslands og unnið til verðlauna í hástökki og kúluvarpi í frjálsum íþróttum. Það er því ljóst að hér hefur kvennalið UMFN fengið öflugan liðsmann í þann fríða hóp sem fyrir er.
Dalla kvaðst vera mjög spennt fyrir komandi vetri og sagði að hún myndi stunda nám hjá Keili í vetur og því hefði Njarðvík verið mjög spennandi og góður kostur fyrir sig.
Í spjalli við umfn.is sagðist Sverrir Þór þjálfari, vera mjög ánægður með að málið sé í höfn. ,,Njarðvík hefur haft augastað á Döllu í nokkur ár og þegar hún setti 29 stig (9 fráköst og 5 varin) á okkur í bikarnum í vetur, lögðum við kapp á að fá hana til okkar. Hún er hávaxin og kemur vonandi til að styrkja okkur undir körfunni, sagði Sverrir að lokum.
Mynd/umfn.is: Jón Júlíus Árnason handsalar samninginn við Salbjörgu (Döllu) og Sverrir Þór þjálfari Njarðvíkinga ræður sér vart fyrir kæti eins og sjá má.