Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar bikarmeistarar í áttunda sinn
Sunnudagur 13. febrúar 2005 kl. 23:58

Njarðvíkingar bikarmeistarar í áttunda sinn

Njarðvíkingar eru bikarmeistarar KKÍ í áttunda skiptið eftir sannfærandi sigur á spútnikliði Fjölnis, 90-64.

Leikurinn í dag var hraður og skemmtilegur en reynsla og breidd Njarðvíkinga gerði gæfumuninn að lokum.
Njarðvíkingar hófu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu 11 stigin áður en Fjölnismenn svöruðu. Þeir komu sér hins vegar strax aftur inn í leikinn þegar erlendu leikmenn þeirra hrukku í gang og þeir Jeb Ivey, Nemanja Sovic og Darrel Flake komu Fjölnismönnum yfir 21-22 áður en fyrsta leikhluta lauk.


Anthony Lackey hóf annan leikhluta hins vegar með því að skora 2 þriggja stiga körfur fyrir Njarðvíkinga og kom þeim aftur yfir. Liðin skiptust á að leiða fram í leikhlutann þegar Njarðvíkingar tóku stjórnina. Þeir náðu 8 stiga forskoti, 43-35 með 3ja stiga körfu Egils Jónassonar, en Fjölnismenn söxuðu á forskotið fyrir hálfleik þar sem staðan var 43-39. Hins vegar var augljóst að breiddin ætti eftir að vera vandamál Fjölnis. Ivey, Flake og Sovic höfðu skorað 35 af 39 stigum þeirra og myndu varla halda svona út allan leikinn.

Í upphafi seinni hálfleiks sigu Njarðvíkingar framúr og eftir að Nemanja Sovic var sendur af velli með 5 villur. Matt Sayman fór fyrir Njarðvíkingum sem léku fasta vörn og gerðu Fjölnismönnum lífið leitt. Staðan var 66-50 fyrir síðasta leikhluta og ljóst í hvað stefndi.

Guðmundur Jónsson, sem var að öðrum ólöstuðum besti maður Njarðvíkinga í dag, gulltryggði sigurinn með þremur 3ja stiga körfum áður en hann fékk sína fimmtu villu. Leikurinn var löngu ráðinn áður en dómararnir blésu til leiksloka og Njarðvíkingar fögnuðu gríðarlega í leikslok.

„Þetta var frábær leikur allan tímann,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Bikarmeistaranna í viðtali við Víkurfréttir í leikslok. „Við lögðum mikla áherslu á varnarleikinn og það voru allir að leggja í púkkið, það skipti ekki máli hver var á gólfinu. Vörnin og breiddin gerðu gæfumuninn og svo kom sóknin í kjölfarið.“
En skyldi þessi sigur efla trú Njarðvíkinga á að landa Íslandsmeistaratitlinum?
„Ekki spurning. Auðvitað er þetta mikilvægt og gaman og gefur mönnum mikið sjálfstraust. Við fórum af stað í haust ákveðnir í að taka stóru titlana. Nú er annar í höfn og baráttan hafin fyrir þeim næsta.“

Tölfræði leiksins

VF-myndir/Héðinn Eiríksson


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024