Njarðvíkingar áfram í Kjörísbikarnum
Njarðvíkingar tryggðu sig áfram í Kjörísbikarnum á föstudag þegar þeir unnu ÍR 125:94. Leikurinn á föstudag var seinni leikur liðanna en Njarðvík tryggði með sigrinum rétt til að leika í undanúrslitum Kjörísbikarsins sem fram fer laugardaginn 24. nóvember í Njarðvík en þá mætir liðið KR-ingum. Keflvíkingar hafa einnig tryggt sér þátttöku í undanúrslitunum en þeir mæta Þór Akureyri í Smáranum þennan sama dag. Það verður fróðlegt að sjá hvort ekki verði grannaslagur þegar úrslitaleikurinn fer fram.