Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar ætla sér í úrslitakeppnina - mæta deildarmeisturunum í kvöld
Mánudagur 19. mars 2012 kl. 15:28

Njarðvíkingar ætla sér í úrslitakeppnina - mæta deildarmeisturunum í kvöld



Njarðvíkingar taka á móti deildarmeisturunum úr Grindavík í Iceland Express-deild karla í körfubolta klukkan 19:15 í kvöld en þeir grænklæddu eiga í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Sem stendur eru Njarðvíkingar í áttunda sæti og sigur í kvöld myndi tryggja þeim inn í úrslitakeppnina. „Ég hefði viljað vinna Fjölni í síðasta leik en eins og staðan er núna þá þýðir ekkert annað en að vinna Grindavík eða Tindastól á útivelli í síðustu umferð ef við ætlum að vera með í úrslitakeppninni,“ sagði Friðrik Ragnarsson annar þjálfari Njarðvíkinga í samtali við Víkurfréttir í dag.

Þrír heimasigrar í röð hjá grænum


„Það verður áskorun á mæta Grindvíkingum í kvöld en ég tel okkur eiga ágætis möguleika þar sem við höfum verið að leika vel á heimavelli að undanförnu,“ en Njarðvíkingar hafa sigrað síðustu þrjá heimaleiki sína og nú síðast gegn Keflvíkingum. Grindvíkingar hafa aftur á móti tapað tveimur síðustu leikjum sínum. Annar grannaslagur í kvöld og Friðrik er á því að best væri að klára dæmið og tryggja sig inn í úrslitakeppni. „Með sigri í kvöld erum við pottþéttir inn og það væri óskastaðan, best er að stóla bara á sjálfan sig í þessum málum“ en Friðrik sagðist vera fremur kátur með árangur liðsins það sem af er vetri. „Ég er í rauninni nokkuð sáttur. Þetta er búið að spilast nokkuð vel fyrir okkur og miðað við hóp og þann pól sem við tókum í hæðina þá er þetta vel ásættanlegt.“

Fari svo að Njarðvíkingar lendi í áttunda sætinu í Iceland Express-deildarinnar þá verða mótherjar þeirra einmitt Grindvíkingar í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. „Það yrði verðugt verkefni en ég held að allir séu sammála um það að þeir eru með sterkasta liðið á pappírunum,“ sagði Friðrik að lokum en svo er bara að sjá hvort Njarðvíkingar verði með í úrslitakeppninni sem hefst innan skamms.

Steinsnar frá, eða við Sunnubrautina í Reykjanesbæ, taka Keflvíkingar á móti ÍR en Keflvíkingar hafa tapað síðustu tveimur deildarleikjum sínum. ÍR er í harðri baráttu við Njarðvíkinga um áttunda sætið og því fara línurnar væntanlega að skýrast eftir leiki kvöldsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024