Njarðvíkingar að vakna til lífsins
Njarðvíkingar virðast vera að vakna til lífsins í 2. karla í fótboltanum en í kvöld unnu þeir 2-0 sigur á Gróttu. Daníel Gylfason kom grænum yfir eftir stundarfjórðung og þar við sat í fyrri hálfleik. Í uppbótartíma skoraði svo Rafn Markús Vilbergsson úr víti eftir að brotið hafði verið á Daníel Gylfasyni. Njarðvíkingar voru mun betri aðilinn í leiknum og þeir sóttu sérstaklega hart að marki Gróttu í byrjun seinni hálfleiks en uppskáru ekki mark.
Það kom eftir að venjulegum leiktíma lauk eins og áður segir en með sigrinum eru Njarðvíkingar komnir með átta stig eftir sex leiki. Það skilar þeim í 6. sæti deildarinnar.