Njarðvíkingar á góðu skriði
- „Flott umgjörð og samheldni í ungum og kraftmiklum leikmannahópi,“ segir Rafn M. Vilbergsson þjálfari UMFN sem er á toppi 2. deildar
Njarðvíkingar hafa farið vel af stað 2. deildinni í sumar og þegar mótið er hálfnað eru þeir í 1. sæti. Rafn Markús Vilbergsson, þjálfari Njarðvíkur, er sáttur með sína menn. Rafn er uppalinn í Garðinum og hefur spilað með Njarðvík, Víði, Val og Keflavík á ferlinum. Hann hefur þjálfað frá árinu 2006, fyrst hjá yngri flokkum í Njarðvík. Hann var aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokk Njarðvíkur 2011 og þjálfaði meistaraflokk Víðis í Garði 2014-2015 og tók við þjálfun Njarðvíkurliðsins í lok ágúst 2016.
Leikmenn með áhuga
„Um mitt mót er staðan í deildinni skemmtileg fyrir alla sem koma að Njarðvíkurliðinu. Fyrir tímabilið lögðum við áherslu á að halda kjarna þeirra leikmanna sem spilað hafa með liðinu síðustu ár, leikmanna sem hafa mikinn áhuga og metnað til að koma félaginu ofar. Einnig að bæta við sterkum leikmönnum, mismunandi karakterurum úr mismunandi áttum til að gera atlögu að efri hluta deildarinnar. Leikmannahópurinn er ungur, samheldnin og kraftmikill,“ segir Rafn.
Vel undirbúnir
„Liðið kom vel undirbúið til leiks í vor. Við spiluðum fjölda leikja á undirbúningstímabilinu. Við fórum í æfingaferð til Svíþjóðar og æfðum vel við topp aðstæður í Reykjaneshöll. Umgjörðin í kringum liðið er flott, stjórnin er virk og dugleg að styðja við bakið á liðinu. Fyrir utan flottan leikmannahóp og stjórn er flott þjálfarateymi sem á stóran þátt í stöðu liðsins. Með okkur Snorra Má Jónssyni eru Sævar Júlíusson markmannsþjálfari, Gunnar Ástráðsson sjúkraþjálfari og einnig aðstoðaði Steindór Gunnarsson sundþjálfari okkur við æfingar i vetur.
Góð staða
„Staðan á hópnum er nokkuð góð fyrir utan að Andri Fannar Freysson fyrirliði, sem spilað hefur mjög vel á tímabilinu, hefur verið frá vegna meiðsla í síðustu leikjum. Hörður Fannar Björgvinsson verður í leikbanni gegn Hugin en annars eru allir klárir í að taka á móti Hugin á laugardaginn og fylgja eftir góðum leik gegn Völsungi. Ánægjulegt er að Ari Már Andrésson hefur verið að koma sterkur inn en hann hefur verið mikið frá vegna meiðsla frá upphafi árs 2016. Davíð Guðlaugsson er á góðu róli eftir fótbrot í byrjun maí og á mánudaginn mætti hann á sína fyrstu æfingu í takkaskóm eftir brotið.
Þrír markmenn
„Við förum i alla leiki til að vinna. Við spiluðum frábærlega í síðasta leik gegn Völsungi og vonandi verður framhald á þeirri spilamennsku á laugardaginn. Við reynum að undirbúa okkur eins vel og kostur er og skoða styrkleika og veikleika hjá Hugin en liðið hefur verið á miklu skriði á síðustu vikum, eru taplausir frá því í 2. umferð. Ólíkt mörgum liðum þá höfum við þrjá flotta markmenn á æfingum hjá okkur. Það kemur sér vel á laugardaginn þar sem Hörður Fannar verður í leikbanni og kemur það í hlut Brynjars Atla Bragasonar að standa vaktina í markinu.“
Jákvæður stuðningur
„Við erum bjartsýnir á að okkar unga og skemmtilega lið haldi áfram að safna stigum með það að markmiði að haldast í toppbaráttunni. Mikil aukning frá fyrri árum hefur verið á áhorfendafjölda á Njarðtaksvelli í sumar og jákvæður stuðningur hefur verið á pöllunum. Vonandi halda Njarðvíkingar og aðrir Suðurnesjamenn áfram að mæta á völlinn og styðja Njarðvíkurliðið í baráttunni fram á haust,“ segir Rafn að lokum.