Njarðvíkingar á góðri siglingu
Njarðvík hrósaði sínum þriðja deildarsigri í röð í kvöld er liðið lagði Skallagrím á sannfærandi hátt í Ljónagryfjunni. Lokatölur voru 76-66 eftir góðan lokasprett Borgnesinga.
Gestirnir byrjuðu betur þar sem Jovan Zdravevski fór fyrir þeim. Eftir um 4 mín leik hrökk svo fallbyssan á Brenton Birmingham í gírinn og hann setti 3 þriggja stiga körfur á stuttum tíma. Samtímis settu heimamenn í lás í vörninni og skoruðu 23 stig á móti 4 til loka fyrsta leikhluta. Staðan 26-11.
Clifton Cook kom sterkur inn fyrir Skallagrím í öðrum leikhluta og skoraði þar 10 stig. Hann hélt sínum mönnum inni í leiknum og var munurinn 12 stig, 40-28 þegar blásið var til hálfleiks.
Í seinni hálfleik var sama uppi á teningnum. Góð vörn hjá Njarðvík sem hélt Sköllunum í hæfilegri fjarlægð og Njarðvíkingar náðu 20 stiga forystu, 60-40, undir lok 3. leikhluta. Guðmundur Jónsson, bakvörðurinn ungi í liði Njarðvíkur átti m.a. góða innkomu á þessum kafla, jafnt í sókn og vörn.
Í síðasta leikhlutanum var augljóst á leik Njarðvíkinga að sigurinn var í höfn og þeir þurftu ekki að hafa mikið fyrir hlutunum. Þótt Skallarnir hafi unnið á náðu þeir ekki að minnka muninn niður fyrir 10 stig fyrr en um mínúta var til leiksloka. Á undraskömmum tíma breyttu þeir stöðunni úr 73-59 í 73-66 þar sem klaufaskapur í sóknarleik Njarðvíkinga varð þeim næstum að falli. Tíminn var hins vegar of naumur og Matt Sayman og Jóhann Árni Ólafsson gerðu út um leikinn með þremur stigum úr vítum á lokasekúndunum.
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með gengið á liðinu sem hann sagði á réttri leið fyrir bikarúrslitin um næstu helgi. „Maður er auðvitað ánægður eð sigurinn í kvöld og það er fínt að hafa þrjá sigra á bakinu þegar farið er inn í úrslitaleik. Við vorum annars að spila vel í kvöld, en vantaði svolítið upp á að gefa í og klára leikinn þegar við vorum komnir 20 stigum yfir. Við vorum kannski pínu kærulausir, en við vitum vel að við þurfum að leika betur til að vinna bikarinn um næstu helgi, enda ætlum við okkur að toppa þá.“
Stigahæstir:
Nja: Brenton 16, Páll K. 14, Sayman 12, Friðrik 10, Guðmundur 9.
Ska: Ragnar Steinsson 17, Zdravevski 16, Cook 16/12.
VF-myndir/Þorgils