Njarðvík vann kveðjuleikinn í Ljónagryfjunni
Bónusdeild kvenna hófst í kvöld með Suðurnesjaslag Njarðvíkur og Grindavíkur og ef eitthvað er að marka þá sem hafa með skipulagsvald á nýju íþróttahúsi Njarðvíkinga að gera, var þetta kveðjuleikur grænna í hinni frægu Ljónagryfju.
Eftir að Njarðvíkingar voru búnar að vera mun betri aðilinn fram í miðjan þriðja leikhluta með fullskipað lið á móti Kanalausum og Ísabellu-lausum Grindvíkingum, sýndu gular klærnar og buðu upp á hörku lokaleikhluta. Lokatölur 60-54 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 33-22 fyrir Njarðvík
Grindavík byrjaði leikinn betur en um leið og Brittany Jenkins, Kani Njarðvíkinga, fann fjöl sína þá var nánast bara eitt lið á vellinum og grænu ljónynjurnar leiddu með ellefu stigum í hálfleik, 33-22.
Ræða Þorleifs þjálfara Grindavíkur og aðstoðarmanns hans, Nökkva Más Jónssonar, skilaði greinilega sínu og Grindavík minnkaði forskotið hægt og örugglega og með þristi í fyrsta skoti lokafjórðungsins fór munurinn niður í sex stig og einfaldlega hörku leikur í gangi! Minnstur fór munurinn í 1 stig en Njarðvíkurstúlkur, dyggilega studdar af vel mættri Ljónagryfju, voru betri á lokasprettinum og unnu öruggan sigur í lokin, 60-54.
Brittany var nánast óstöðvandi hjá grænum eftir að hún hristi af sér slyðruorðið, hún klikkaði á fyrstu skotunum sínum en síðan héldu henni engin bönd. Hún endaði með 31 stig, tók 12 fráköst og fiskaðir heilar 9 villur. Aðrir leikmenn Njarðvíkur sem spiluðu voru tiltölulega jafnir.
Hjá Grindavík bar mest á fyrirliðanum, Huldu Björk Ólafsdóttur, Ragnheiði Björk Einarsdóttur, Katarzyna Anna Trzeciak og hinni dönsku Sofie Tryggedsson.
Gular þurfa samt ekki að örvænta, það er á flestra vitorði hversu mikilvægur hlekkur í kvennaliði, Kaninn er og ekki nóg með að það vantaði Alex Morris, heldur er hin stóra og stæðilega Ísabella Ósk Sigurðardóttir sem einmitt lék með Njarðvík í fyrra, að jafna sig á ökklameiðslum en gert ráð fyrir að hún verði tilbúin í þarnæsta leik.
Viðtöl má sjá í spilurunum hér að neðan og myndasafn Jóhanns Páls Kristbjörnssonar, ljósmyndara Víkurfrétta, er neðst á síðunni.