Njarðvík vann KR í Hópbílabikarnum!
Njarðvík bar sigur úr býtum í rimmu sinni við KR í Hópbílabikarkeppni karla í kvöld. Leikurinn, sem fór fram í DHL-höllinni í Reykjavík, fór 81-82. Njarðvík leiddi allan leikinn en náðu aldrei að hrista Vesturbæjarliðið af sér og voru klaufar að missa leikinn niður í eitt stig undir lokin. Friðrik Ragnarsson, þjálfari Njarðvíkur, sagði að frammistaða stóru mannanna undir körfunni hefði verið það sem tryggði sigurinn. „Við getum alltaf bókað á Woudstra og Brenton, en þegar Frikki og Palli eru að leika eins vel og í kvöld vinnum við yfirleitt.“ Friðrik lýsti einnig ánægju sinni með Ólaf Ingvason sem gaf 9 stoðsendingar og stóð sig með stakri prýði. Annars var Brandon Woudstra stigahæstur með 25 stig og þar á eftir komu Friðrik Stefánsson með 17 stig og Páll Kristinsson með 16.
Óhætt er að lofa hörkuleik í Njarðvík á fimmtudag þar sem heimamenn freista þess að halda forystunni sem fékkst í kvöld.
Leik Grindavíkur og ÍR í Hópbílabikar kvenna er ekki lokið enn.