Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík vann Keflavík í annað sinn í vetur
Mánudagur 2. mars 2009 kl. 22:38

Njarðvík vann Keflavík í annað sinn í vetur

Njarðvíkingar sigruðu Keflvíkinga 73-83 í nágrannaslag í Iceland Express deildinni í körfubolta í Toyota höllinni í kvöld. Leikurinn var jafn lengst af en þeir grænklæddu náðu yfirhöndinni í síðari hálfleik og héldu henni til leiksloks og innbyrtu tíu stiga sigur.
„Við erum stærri og með tvo útlendinga sem Keflvíkingar hafa ekki. Það munar um það þó svo við höfum ekki haft Loga Gunnarsson í kvöld. Við höfum verið að stilla okkur af eftir að við fengum útlendingana og þetta er allt að smella. Leikurinn í kvöld var kannski ekki týpiskur nágrannaslagur þar sem hann skipti ekki máli fyrir liðin. Hann breytti engu með röð þeirra í deildinni en það er samt alltaf gaman og gott að sigra hér í Keflavík,“ sagði Valur Ingimundarson, þjálfari Njarðvíkinga.
-Áttu von á því að vinna bróður þinn og Keflvíkingana í úrslitakeppninni?
„Þeir verða erfiðir. Þeir eru það alltaf og við getum engan veginn bókað sigur gegn þeim. Keflvíkingar eru og hafa alltaf verið mikið baráttulið,“ sagði Valur.
Keflavík átti í erfiðleikum með Magnús Gunnarsson, fyrrverandi leikmann liðsins í þriðja leikhluta en þá raðaði hann niður nokkrum þristum og náði forystu fyrir UMFN sem Keflavík náði ekki að brúa. Hann endaði leikinn með 16 stig. Heat Sitton, liðsstjórandi UMFN er drjúgur og munar um minna að hafa svo sterkan leikmann í þessari stöðu. Hann skoraði mest hjá liðinu eða 19 stig. en hinn nýi leikmaðurinn, Fuad Memcic er hávaxinn mjög og sterkur og mun án efa reynast liðinu dýrmætur í úrslitakeppninni. Það er því hægt að taka undir orð þjálfarans um hversu mikill liðsstyrkur það hefur verið að fá þessa tvo útlendinga.
Hjá Keflavík var Sigurður G. Þorsteinsson stigahæstur með 24 stig og stóð sig vel. Var með góða skotnýtingu (71%) inn í teig og var sterkur í vörn. Hörður Axel Vilhjálmsson var líka sterkur, skoraði 20 stig og átti tvær skemmtilegar troðslur. Gunnar Einarsson var næstur með 9 stig og Jón Norðdal skoraði 8. Báðir eru þeir vanir að skila meira framlagi en Keflavíkurliðið skoraði ekki nema 73 stig í leiknum. Kannski Gunnar komi sterkur inn í úrslitakeppnina eins og í fyrra þegar hann var lykilmaður í liðinu og það tryggði sér Íslandsmeistaratitllinn.
Eins og fyrr segir er líklegast að Keflavík og Njarðvík eigist við í 8 liða úrslitum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Heath Sitton sækir að körfu Keflavíkur. Gunnar Einarsson er til varnar. Fleiri myndir úr leiknum væntanlega í myndagallerí vf.is. VF-myndir/pket.