Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 27. nóvember 2003 kl. 21:59

Njarðvík vann Hauka í Intersport-deildinni

Njarðvík vann góðan útisigur á sterku Haukaliði í Intersport-deildinni í kvöld. Sigurinn var ákaflega sálrænn þar sem Haukar höfðu unnið sex síðustu viðureignir liðanna.

 

Njarðvíkingar voru við stjórnvölinn allan tíman og sigurinn var aldrei í hættu. Friðrik Ragnarsson var ánægður með að hafa loks bundið enda á sigurgöngu Haukanna. „Þetta var alveg ágætur leikur. Við höfðum tak á þeim allan tímann og spiluðum góða vörn. Þetta var enginn glansleikur hjá okkur en við kláruðum hann og þá er þessi Grýla líka dauð!“

 

Fyrir fram var vitað að Njarðvíkingar þyrftu að hafa góðar gætur á hinum feikiöfluga miðherja Haukanna, Michael Manciel. Hann hefur tekið flest fráköst allra í deildinni og skorað 27 stig að meðaltali í leik. Friðrik Stefánsson fékk það hlutverk og leysti með prýði. „Frikki var mjög góður í kvöld,“ sagði þjálfarinn. „Hann batt vörnina saman og var fínn í sókninni líka. Manciel er alger boli, en Frikki er engin smásmíði heldur þannig að þetta var bara stál í stál.“

 

Stigahæstir Njarðvíkur: Brandon (20 stig, 9 fráköst), Páll (16 stig) og Brenton (16 stig, 9 fráköst).

Stigahæstir Hauka: Manciel (21 stig, 12 fráköst) og Marel (11 stig).

 

Eftir leikinn er Njarðvík í öðru sæti á eftir Grindavík, sem á erfiðan leik í vændum gegn Keflavík sem gæti komist upp að hlið Njarðvíkinga með sigri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024