Njarðvík tók örugglega forystu í einvíginu við Þór
Njarðvíkingar unnu Þór Þorlákshöfn nokkuð sannfærandi í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Subway-deildar karla í körfuknattleik sem var leikinn í Ljónagryfjunni í kvöld.
Njarðvík - Þór Þorlákshöfn 87:73
(26.19 | 25:17 | 16:21 | 20:16 )
Njarðvík tók forystu snemma leiks og leiddi með sjö stigum eftir fyrsta leikhluta (26:19) og hafði aukið forskotið í fimmtán stig í hálfleik (51:36).
Þórsarar bitu frá sér í þriðja leikhuta og sýndu að það má ekki gefa þeim neinn slaka. Þeir minnkuðu muninn í tíu stig (67:57) en Njarðvíkingar voru ekki á þeim buxunum að gefa leikinn frá sér og kláruðu hann örugglega með fjórtán stiga mun.
Dwayne Ogunleye-Lautier var atkvæðamestur heimamanna með 28 stig og þá átti Þorvaldur Orri Árnason einnig góðan leik sem skilaði 17 stigum til Njarðvíkur, hvor um sig setti niður fjóra þrista í leiknum.
Domynikas Milka var með 16 stig, Mario Matasovic 8 stig, Veigar Alexanderson 7 stig, Maciek Baginski, 6 stig og Chaz Williams 5 stig.
Njarðvík er því komið með yfirhöndina í einvíginu en liðið mætast að nýju á sunnudag í Þorlákshöfn.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók meðfylgjandi myndir í Ljónagryfjunni í kvöld.