Njarðvík tapar fyrsta heimaleiknum
Það var fátt um fína drætti þegar Njarðvíkingar lutu í lægra haldi gegn HK í kvöld. Staðan að leik loknum var 0-1 HK í vil. Þetta var fyrsti tapleikur Njarðvíkinga á heimavelli í sumar. Liðin voru bæði vör um sig í fyrri hálfleik og sóttu ekki mikið en áttu þó ágætis rispur við og við.Seinni hálfleikur var þó aðeins tilþrifameiri og til tíðinda dró þegar Hörður Már Magnússon skoraði fyrir HK á 61.mínútu með góðu skoti rétt fyrir utan teig. Eftir markið sóttu Njarðvíkingar í sig veðrið en voru frekar bitlausir og féllu oft í rangstöðugildru HK-manna. Á 92. mínútu fengu þeir grænklæddu sitt besta færi þegar varamaðurinn Magnús Ólafsson fékk sendingu inn fyrir vörnina, var einn á móti markmanni og hugðist vippa boltanum yfir hann en allt kom fyrir ekki og skotið var vel varið af Gunnleifi Gunnleifssyni.
Alls var 5 mínútum bætt við leikinn en Njarðvíkingar náðu ekki að nýta sér það og því fyrsta tapið á heimavelli í sumar staðreynd.
Mynd úr safni






