Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík tapaði gegn Stjörnunni
Þriðjudagur 26. október 2010 kl. 10:18

Njarðvík tapaði gegn Stjörnunni


Njarðvíkingar biðu ósigur þegar þeir mættu Stjörnunni í gærkvöldi í fjórðu umferð Iceland Express deildar karla í körfuknattleik. Stjarnan var á heimavelli og sigraði með 10 stiga mun, 91-81.

Stjörnumenn byrjuðu betur og höfðu yfirhöndina eftir fyrsta leikfjórðung, 27-19. Njarðvíkingar spiluðu mikið upp á Christopher Smith, en hann skoraði 10 af fyrstu 15 stigum liðsins. Liðin skipust á að skora í upphafi annars fjórðungs en Stjörnumenn voru farnir að hitna fyrir utan teig. Þrjár 3ja stiga körfur frá þeim komu eins og blaut tuska í andlitið á Njarðvíkingum sem tóku leikhlé. Það stöðvaði ekki framgöngu Stjörnumanna sem voru komnir með 14 stiga forskot rétt undir lok fyrri hálfleiks. Njarðvíkingar náðu að rétta úr kútnum í lokin og minnka muninn í 10 stig áður en flautað var til hálfleiks. Staðan í hálffleik var því 52-42.

Stjörnumenn héldu Njarðvíkingum í skefjum í þriðja leikhluta og höfðu þrettán stiga forskot þegar honum lauk, 78-65. Í fjórða leikhlutanum gripu Njarðvíkingar til svæðisvarnar sem setti heimamenn út af laginu þannig að þeir náðu ekki að skora körfu fyrstu sex mínúturnar. Njarðvíkingar náðu að minnka muninn niður í 5 stig og allt virtist stefna í spennandi og dramatískan lokakafla. Stjörnumenn fóru þó ekki á taugum og náðu að klára leikinn með 10 stiga mun, 91-81.

Christopher Smith var með 29 stig fyrir Njarðvík og 8 fráköst. Guðmundur Jónsson skoraði 15 stig.

Njarðvíkingar eru nú í 8. sæti deildarinnar með tvo unna leiki og tvo tapaða. Þeir eru einu sæti ofan en nágrannar þeirra í Keflavík sem hafa tapað þremur leikjum og unnið einn.

Mynd/Guðmundur Jónsson skoraði 15 stig fyrir Njarðvík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024