Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík sigrar í Suðurnesjauppgjöri!
Mánudagur 27. október 2003 kl. 21:57

Njarðvík sigrar í Suðurnesjauppgjöri!

Njarðvík bar sigurorð af Keflavík í Intersport-deildinni í kvöld 93-86. Njarðvíkingar, sem spiluðu á heimavelli, höfðu frumkvæðið allan leikinn og stóðu af sér harða sókn Keflvíkinga í seinni hálfleik og lönduðu loks tveimur dýrmætum stigum. Leikurinn var æsispennandi allan tímann og var andrúmsloftið í Íþróttamiðstöðinni í Njarðvík rafmagnað á köflum þar sem dyggir stuðningsmenn liðanna fóru mikinn, þá sérstaklega vaskir trumbuleikarar Keflavíkur.

Að leik loknum var Guðjón Skúlason ómyrkur í máli yfir frammistöðu sinna manna. „Þetta var bara lélegt. Menn voru greinilega ekki tilbúnir í leikinn. Njarðvíkingar voru einfaldlega betra liðið á vellinum.“
Annar tónn var skiljanlega í kollega hans í Njarðvíkurliðinu, Friðrik Ragnarssyni. Hann var hæstánægður með sigur í mikilvægum leik þar sem hans menn héldu um stjórnartaumana allan tímann. Brandon Woudstra var, að öðrum ólöstuðum, besti maður leiksins og var Friðrik í skýjunum með frammistöðu hans þrátt fyrir smávægileg meiðsli. „Woudstra er algjör fallbyssa! Það má ekki gefa honum sentímeter þá er hann búinn að refsa.“
Woudstra, sem skoraði 32 stig í leiknum, sagðist hafa fengið skotleyfi hjá þjálfaranum í leiknum. „Til þess er ég hérna... Til að skjóta þegar þörf er á.“
Brenton Birmingham átti líka góðan leik og skoraði 26 stig og Páll Kristinsson skoraði 13 stig auk þess sem hann tók 12 fráköst.
Í liði Keflavíkur var Derrick Allen stigahæstur með 21 stig og þar næst kom Falur Harðarson með 16 stig.
Að leik loknum eru Njarðvíkingar tveimur stigum á eftir toppliði Grindavíkur með sex stig eftir fjóra leiki en Keflavík eru með sex stig. Þess má geta að það sem af er deildinni hafa liðin virst mjög jöfn að getu og enginn leikur er fyrirfram gefinn.

VF-ljósmynd/Hilmar Bragi: Úr leik Keflavíkur og Njarðvíkur í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024