Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík sá aldrei til sólar í Keflavík
Mánudagur 18. janúar 2010 kl. 22:41

Njarðvík sá aldrei til sólar í Keflavík

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingar yfirstigu spennustigið í Toyota höllinni í Keflavík í kvöld.þegar þeir rúlluðu yfir nágranna sína úr Njarðvík í 8 liða úrslitum Subway bikarkeppninnar með tuttugu stiga mun, 93-73 eftir að hafa leitt með 21 stigi í hálfleik 51-30. Það var alger sláturtíð hjá heimamönnum í fyrri hálfleik.


Fyrstu mínúturnar í leiknum voru jafnar og staðan 7-7 eftir 5 mínútna leik en þá fóru heimamen í gang og leiddu með 8 stigum eftir fyrsta leikhluta, 21-13. Þeir léku mjög stífa vörn og eltu þá grænu hvert sem þeir fóru og voru miklu grimmari í öllum aðgerðum. Þremenningarnir Draelon Burns, Gunnar Einarsson og Hörður Axel Vilhjálmsson voru um allt og röðuðu niður körfunum á meðan ekkert gekk hjá þeim njarðvísku. Þeir héldu áfram og bættu við um tug stiga áður en flautað var til leikhlés, skoruðu meðal annars fimmtán stig í röð (45-20) en tölurnar í hálfleik sýndu 51-30. Það er ekki oft sem Njarðvík skora ekki nema 30 stig í hálfleik.

Sigurður Ingimundarson, hinn keflvíski þjálfari Njarðvíkinga átti fá svör við grimmum grönnum og það var alveg sama hverjum hann skipti inn á, það náði enginn að stíga nógu mikið upp á meðan hans fyrrverandi félagar léku við hvern sinn fingur í öllum sínum aðgerðum. Það var ljóst að kraftaverk þurfti til að berja niður Keflavíkurvörnina í síðari hálfleik. Sigurður var fámáll en ekki í fýlu í hálfleik þegar VF reyndi að heyra í kappanum. Hafði honum tekist að berja baráttu í sína menn?

Fátt benti til þess fyrstu mínútur síðari hálfleiks að Njarðvik næði að jafna leikinn þó svo þeir reyndu hvað þeir gátu. Það gekk hreinlega ekkert upp. Það var eins og það væri lok á körfunni en Keflvíkingar slökuðu aðeins á og þeir grænu náðu að minnka muninn í 14 stig. Þá fékk Jóhann Árni Ólafsson villu og tæknivíti til viðbótar og Keflvíkingar settu niður 3 vítaskot af fjórum. Eftir það virtist allur vindur úr Njarðvík og leikurinn var ekki skemmtilegur síðustu mínúturnar, mikið um brot og vítaskot. Lokatölur 93-73 og Keflvíkingar eru komnir í undanúrslit.

Það höfðu margir spekingar spáð í nokkur einvígi í leiknum, t.d. milli Magnúsar Gunnars og Gunnars Einarssonar eða Sigurðar Þorsteins og Friðriks Stefánssonar, sé ekki talað um útlendingaeinvígi mili Burns og Bradfords. Í öllum þessum tilfellum voru Keflvíkingarnir betri í kvöld og munar um minna. Öðrum leikmönnum gekk líka betur hjá heimamönnum.

Draelon Burns skoraði 29 stig, Gunnar Einars var með 23 og Hörður Axel Vilhjálmsson setti niður 18 stig og þar af tvær troðslur, báðar tilþrifamiklar.
Hjá Njarðvík skoraði Nick Bradford mest eða 16 stig, Hjörtur Einarsson var með 11 og Páll Kristinsson 10.

Hörður Axel treður með „tveimur“.


Frikki Stef og Siggi í baráttu undir körfu Keflavíkur.



Draelon Burns átti mjög góðan leik hjá Keflavík og hefur staðið sig frábærlega með Keflavík í síðustu leikjum.


Keflvískir áhorfendur fagna í leikslok sætum sigri. VF-myndir/Páll Orri og Páll Ketils.