Njarðvík og Reynir eru að missa af lestinni
Njarðvíkingar og Reynismenn gerði sennilega endanlega út um vonir sínar um að leika í 1. deild að ári þegar liðin töpuðu dýrmætum stigum um helgina. Reynismenn máttu sætta sig við stórt tap gegn Hetti á Egilsstöðum, 5-2 og Njarðvíkingar töpuðu niður forystu á síðustu andartökum leiksins á heimavelli sínum.
Njarðvík tók á móti Fjarðarbyggð á heimavelli sínum þegar Ljósanótt stóð sem hæst á laugardaginn. Gestirnir komust tvisvar yfir snemma í leiknum en Ólafur Jón Jónsson og Ísleifur Guðmundsson jöfnuðu fyrir Njarðvíkinga. Þeir grænklæddu komust svo loks yfir á 66. mínútu þegar að Kristinn Björnsson skoraði laglegt mark. Allt virtist stefna í sigur Njarðvíkinga þar til þeir fengu dæmda á sig vítaspyrnu á lokamínútu leiksins sem Jóhann Ragnar Benediktsson fyrrum leikmaður Keflavíkur og Grindavíkur skoraði úr.
Mörk Reynismanna skoruðu þeir Egill Jóhannsson og Marteinn Guðjónsson.
Eftir leikina eru Njarðvíkingar með 33 stig og eru 6 stigum frá efsta liðinu en Sandgerðingar eru skammt undan með 32 stig. Aðeins eru tveir leikir eftir af deildarkeppninni og í síðasta leiknum mætast Njarðvík og Reynir á Njarðtaksvelli.
Staðan
VF-Mynd Eyþór Sæm: Mark Kristins Björnssonar dugði Njarðvíkingum ekki í þetta sinn.