Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík og Keflavík unnu leiki sína
Mánudagur 31. janúar 2005 kl. 18:03

Njarðvík og Keflavík unnu leiki sína

NJARÐVÍK-HAMAR/SELFOSS
Njarðvíkingar unnu mikinn seiglusigur á Hamri/Selfoss í Hveragerði í gær. Lokatölur voru 78-79, en Njarðvíkingar, sem og fleiri, hafa oft átt í basli með heimamenn á þessum erfiða velli.

Njarðvíkingar byrjuðu vel en Hamarsmenn náðu undirtökunum áður en fyrsti leikhluti var úti. Þeir héldu síðan forskotinu allt þar til um 8 mínútur voru eftir af leiknum þegar Njarðvíkingar komust yfir á ný. Eftir það var forystan um fimm stig þar til undir lokin þegar heimamenn sóttu í sig veðrið og minnkuðu muninn niður í eitt stig. Chris Woods fékk tækifæri á að vinna leikinn fyrir Hamar/Selfoss þegar hann skeiðaði upp völlinn á lokasekúndunum en hann keyrði Friðrik Stefánsson, miðherja Njarðvíkur, niður og fékk dæmdan á sig ruðning.

Einar Árni, þjálfari Njarðvíkinga, var ánægður með að vinna sigur á þessum erfiða velli þó hann hafi ekki verið alsáttur við leik sinna manna.
„Sóknarleikurinn hjá okkur var alls ekki nógu góður og við bjuggumst af meiru hjá nokkrum leikmönnum. Það er jákvætt að ná sigri hér í Hveragerði, en við verðum að spila mun betur ef við ætlum að sigra Fjölni í bikarúrslitunum.“

Tölfræði leiksins

KEFLAVÍK-ÍR

Keflvíkingar unnu góðan útisigur á ÍR, 93-101, í Seljaskóla í gær. Toppsætið er því öruggt enn um sinn, en ÍR er í 6. sæti deildarinnar.

Keflavík náði 12 stiga forskoti í 1. leikhluta og hélt því forskoti nær allan tímann. Staðan var 44-56 í hálfleik og 67-77 fyrir lokasprettinn.
Fyrirliðinn Gunnar Einarsson fór fyrir liði Íslandsmeistaranna og skoraði 25 stig. Anthony Glover og Magnús Gunnarsson voru með 19 stig hvor, en Jón Norðdal Hafsteinsson kom auk þess sterkur inn með 12 stig.

Þeir Theo Dixon og Grant Davis fóru fyrir ÍR með 21 stig hvor og Ólafur Sigurðsson var með 18 stig.

Tölfræði leiksins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024