Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Njarðvík og Keflavík töpuðu úti
Föstudagur 15. desember 2006 kl. 11:05

Njarðvík og Keflavík töpuðu úti

Þrautagöngu Njarðvíkinga lauk í Evrópukeppninni í körfuknattleik í gærkvöldi er þeir urðu að sætta sig við sinn sjötta og síðasta ósigur í riðlakeppninni. Íslandsmeistarar Njarðvíkur mættu eistneska liðinu Tartu Rock og lutu þar í lægra haldi 100-88 eftir að hafa verið 18-25 yfir að loknum fyrsta leikhluta.

Heimamenn reyndust sterkari á endasprettinum og unnu lokaleikhlutann 33-22. Jeb Ivey var stigahæstur hjá Njarðvík með 22 stig en Brenton Birmingham gerði 20 stig í leiknum.

Igor Beljanski lék ekki með Njarðvíkingum í gær og munaði þar um minna. „Hann var ekki með tilskylda vegabréfsáritun og það kom því miður of seint í ljós. Það munaði um hann í þessari baráttu því Friðrik Stefánsson hefði vel getað notað nokkur aukakíló í baráttunni undir körfunni í gær,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga, í samtalvi við Víkurfréttir.

„Við vorum 10 stigum yfir um miðjan þriðja leikhluta en við það fóru Tartu-menn í gang og settu niður stóra þrista og svo byrjuðu þeir fjórða leikhlutann bara betur en við,“ sagði Einar en Njarðvíkingar eru væntanlegir til landsins seinni partinn í dag og geta nú farið að einbeita sér að deildarkeppninni þegar Evrópuævintýrið er úti.

Nágrannar Njarðvíkinga í Keflavík máttu einnig sætta sig við ósigur í gær og það gegn sænska liðinu  Holmen Norrköping. Lokatölur leiksins voru 113-109 í jöfnum og spennandi leik. Thomas Soltau átti góðan dag í liði Keflavíkur með 29 stig og 13 fráköst en Tim Ellis varð snemma frá að víkja sökum meiðsla en ekki er víst hversu alvarleg meiðslin eru.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024