Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík og Grindavík efst í deildinni
Mánudagur 23. október 2006 kl. 11:34

Njarðvík og Grindavík efst í deildinni

Íslandsmeistarar Njarðvíkur og bikarmeistarar Grindavíkur eru á toppi Iceland Express deildar karla í körfuknattleik eftir sigra í viðureignum sínum í gær.

Njarðvíkingar höfðu betur í Borgarnesi 84-87 en þetta var fyrsti leikur Njarðvíkinga í Borgarnesi síðan þeir urðu Íslandsmeistarar þar fyrr á þessu ári. Leikurinn var hörkuspennandi en þess má geta að Skallagrímur leiddi í hálfleik 53-40 en Njarðvíkingar fóru á kostum í þriðja leikhluta og jöfnuðu metin í 68-68 fyrir lokaleikhlutann. Að endingu höfðu Njarðvíkingar sigur og Skallagrímsmenn hafa því tapað fyrstu tveimur leikjunum sínum í deildinni, gegn Keflavík og Njarðvík.

Stigahæstur hjá Njarðvík var leikstjórnandinn Jeb Ivey með 23 stig en Friðrik Stefánsson landaði enn og aftur tvennu er hann gerði 20 stig og tók 12 fráköst.

Grindvíkingar lögðu Hauka í Röstinninni í gær þar sem Bandaríkjamaðurinn Steven Thomas átti stórleik og gerði 24 stig fyrir Grindavík og tók 23 fráköst. Grindvíkingar voru ávallt skrefinu á undan í leiknum og var staðan í hálfleik 47-39 Grindavík í vil. Heimamenn juku við muninn í þriðja leikhluta og höfðu að lokum öruggan sigur á Hafnfirðingum 95-85.

Páll Axel Vilbergsson gerði 23 stig hjá Grindavík en hjá Haukum var Kevin Smith með 23 stig og 8 fráköst.

Einn leikur fer fram í Iceland Express deild karla í kvöld þegar Keflavík tekur á móti KR í Sláturhúsinu en bæði lið höfðu sigur í sínum fyrsta leik í deildinni. Keflavík lagði Skallagrím og KR lagði Snæfell. Það lið sem sigrar í kvöld kemur sér á toppinn með Njarðvík og Grindavík.

 

Staðan í deildinni

VF-mynd/ www.skallagrimur.is


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024