Njarðvík mistókst að halda í annað sætið
Þróttur áfram á sigurbraut
Heil umferð var leikin í dag í 2. deild karla í knattspyrnu. Njarðvík gerði jafntefli við Magna á heimavelli og missti KV upp fyrir sig á meðan Þróttarar unnu stórsigur austur á fjörðum. Reynismenn töpuðu sínum leik en eru áfram í áttunda sæti.
Njarðvík - Magni (1:1)
Njarðvíkingar voru í næstefsta sæti deildarinnar fyrir leikinn í dag en þeir lentu í vandræðum með Magna frá Grenivík sem situr í níunda sæti. Magnamenn voru betri aðilinn í fyrri hálfleik og komust yfir rétt fyrir leikhlé (44').
Njarðvík blés til sóknar í seinni hálfleik og fyrirliðinn, Marc McAusland, náði að jafna leikinn eftir hornspyrnu á 73. mínútu.
„Ekki fallegasta markið,“ sagði Marc við blaðamann eftir leikinn en boltinn fór af öxlinni á honum í markið.
Njarðvíkingar sóttu nánast látlaust eftir jöfnunarmarkið og átti gamla brýnið Hólmar Örn meðal annars þrumusláarskot beint úr aukaspyrnu. Njarðvíkingar sköpuðu sér fjölmörg hálffæri sér með mikilli pressu en Magnamennn héldu þetta út og fleiri mörk voru ekki skoruð.
Með jafnteflinu fór Njarðvík niður í þriðja sæti með 21 stig en KV fór upp fyrir þá með 22 stig.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á staðnum og má sjá fleiri myndir úr leik Njarðvíkur og Magna í myndasafni neðst á síðunni.
Fjarðabyggð - Þróttur (0:4)
Topplið Þróttar gerði góða ferð austur á Eskifjörð þar sem þeir mættu liði Fjarðabyggðar. Það tók Þróttara sautján mínútur að opna markareikninginn en fyrsta markið gerði Sigurður Gísli Snorrason úr vítaspyrnu.
Lengi vel létu fleiri mörk bíða eftir sér en þegar Dagur Ingi Hammer Gunnarsson skoraði (62') komu þau á færibandi. Viktor Smári Segatta skoraði svo aftur þremur mínútum síðar (65') og Hubert Rafal Kotus innsiglaði sannfærandi sigur á 71. mínútu.
Með sigrinum jókst forysta Þróttar á toppnum úr fjórum stigum í fimm stig og verður að segjast að hlutirnir líti vel út fyrir Vogaliðið sem var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í næstefstu deild á síðasta ári í fyrsta sinn.
KF - Reynir (3:0)
Reynismenn riðu ekki feitum hesti í ferð sinni til Fjallabyggðar þar sem þeir mættu liði KF sem situr í fjórða sæti deildarinnar.
Reynismenn lentu undir snemma í leiknum (9') en héldu þó í vonina lengi vel eftir það. Á 84. mínútu skoruðu heimamenn annað mark sitt og í uppbótartíma (90'+5) skoruðu þeir þriðja og síðasta markið.
Hefur heldur sigið á ógæfuhliðina hjá Reynismönnum eftir því sem líður á mótið en þeir sitja í áttunda sæti.