Njarðvík með öruggan útisigur á Grindavík
Njarðvíkingar sigruðu Grindvíkinga örugglega 92-107 í Iceland Express deild karla í leik sem fram fór í Röstinni í kvöld. Njarðvíkingar eru þar með komnir upp að hlið Grindvíkinga í þriðja sæti deildarinnar með 14 stig, en Grindavík eiga þó einn leik til góða á útivelli á móti Þór Ak. Njarðvíkingar eru því búnir að blanda sér í toppbaráttu deildarinnar.
Leikurinn byrjaði fjörlega og liðin voru að hitta vel á fyrstu mínútum fyrsta leikhluta. Liðin skiptust á að leiða og jafnræði var með liðunum. Það var ljóst frá upphafssekúndum leiksins að leikurinn ætti eftir að vera mjög hraður og skemmtilegur. Grindavík náði aðeins að losna frá Njarðvík um miðbik leikhlutans og komst í 20-14 með þriggja stiga körfu frá Adam Darboe og troðslu frá Jonathan Griffin áður en Njarðvík tók leikhlé. Páll Axel Vilbergsson var sérlega heitur fyrir utan þriggja stiga línuna og skoraði þrjár þriggja stiga körfur í röð. Það var þó Brenton Birmingham sem átti lokaorðið í fyrsta leikhluta og staðan var 31-26, gulum í vil.
Njarðvíkingar komu ákveðnari til leiks í öðrum leikhluta. Egill Jónasson kom inná og skoraði fyrstu fimm stig Njarðvíkinga. Grindvíkingar voru þó ávallt skrefinu á undan og héldu ávalt 4-5 stiga forskoti þar til um miðbik leikhlutans. Njarðvíkingar áttu góðan kafla og komust í 44-48 og þar var Damon Bailey og Hörður Axel afar atkvæðamiklir. Grindvíkingar létu þó ekki deigan síga og náðu að jafna þegar sex sekúndur voru eftir 56-56 og því var staðan í hálfleik nokkuð sanngjörn.
Það hefðu líklega flestir búist við að seinni hálfleikur yrði æsispennandi eins og flestar viðureiginir þessara liða að undanförnu en annað kom á daginn. Í þriðja leikhluta fóru Njarðvíkingar á kostum og hreinlega yfirspiluðu Grindvíkinga á öllum sviðum. Jafnræði var með liðunum til að byrja með en fljótlega tóku Njarðvíkingar öll völd á vellinum og náðu með frábærri rispu níu stiga forskoti áður en Grindvíkingar tóku leikhlé. Leikhléið hafði lítil áhrif á Grindvíkinga sem virtust eiga fá svör við frábærri vörn Njarðvíkinga sem leiddu leikinn með 14 stigum 71-85 að þriðja leikhluta loknum, og unnu því leikhlutan 29-15.
Sama sagan hélt áfram í fjórða leikhluta og Njarðvíkingar héldu áfram að breikka bilið og náðu mest 26 stiga forskoti. Páll Axel og Þorleifur Ólafsson voru þeir einu sem virtust með lífsmarki í Grindavíkurliðinu meðan að Damon Bailey og Jóhann Á. Ólafsson fóru hreinlega á kostum og allt fór niður Njarðvík. Leikurinn var í raun búinn um miðbik leikhlutans og Grindvíkingar gerðu sér grein fyrir því og gáfust nánast upp. Þeir náðu
þó að klóra aðeins í bakkann í lok leikhlutans og voru lokaúrslit 92-107.
Njarðvíkingar léku svo sannarlega við hvurn sinn fingur í seinni hálfleik og munaði þar mest um góða spilamennsku frá Damon Baily, Brenton Birmingham og Jóhanni Ólafssyni. Baily var með 35 stig og 11 fráköst og munar það um minna fyrir Njarðvíkinga að fá gott framlag frá erlenda leikmanninum sínum, sem þeir voru ekki að fá framan af leiktíð. Birmingham var með 23 stig og 8 stoðsendingar og Jóhann var með 16 stig og 8 stoðsendingar.
Hjá Grindvíkingum var Páll Axel atkvæðamestur með 24 stig og 7 fráköst. Adam Darboe var með 21 stig og Jonathan Griffin með 20 stig.
Damon Bailey, besti maður vallarins, var ánægður í leikslok en hann lék með Grindvíkingum fyrir nokkrum árum síðan en var látinn fara frá liðinu. Hann var ánægður með að koma aftur í Grindavík og sýna sitt rétta andlit. „Það er frábært að koma aftur til Grindavíkur og sýna hvað ég get. Ég er búinn að vera hugsa um þennan leik frá því eftir leikinn á móti Fjölni og það var virkilega gott tækifæri fyrir mig að sýna Grindvíkingum hvað ég virkilega get. Það tók mig smá tíma að komast í takt við liðið hjá Njarðvík, en strákarnir hafa trú á mér og voru jafn spenntir fyrir þessum leik eins og ég og það hefur hjálpað mér. Núna er það bara að taka einn leik í einu og byggja áframhaldið á þessum sigri,“ sagði Bailey í leikslok.
Grindvíkingar hafa nú tapað þremur leikjum í röð eftir að hafa unnið sjö leiki í röð þar á undan. Þeir eiga fyrir höndum afar erfiðan leik á fimmtudaginn í næstu viku þegar þeir taka á móti Keflavík á heimavelli sínum. Njarðvíkingar eiga hins vegar eiga erfiðan útileik á móti Snæfell á laugardaginn eftir viku.
Texti: [email protected]
Mynd: [email protected] - Jóhann Árni Ólafsson var gríðarsterkur í Njarðvíkurliðinu í kvöld og var ekki fjarri því að landa þrennu.