Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík með frábæran sigur gegn Íslandsmeisturum KR
Jóhann Árni Ólafsson var mikilvægur í sigri Njarðvíkinga í gær. VF mynd úr safni.
Föstudagur 25. nóvember 2016 kl. 10:11

Njarðvík með frábæran sigur gegn Íslandsmeisturum KR

-og Grindavík valtaði yfir Snæfell

Njaðvíkingar sóttu KR heim í DHL höllina í gærkvöldi og sigruðu, 61-72. Það er ekki á hverjum degi sem KR-ingum er haldið í 61 stigi og hvað þá á sínum heimavelli, en góð og samstillt vörn Njarðvíkinga skilaði því. Grindavík valtaði yfir Snæfell á heimavelli, 108-72, og deilir nú toppsæti deildarinnar með KR og Stjörnunni, sem bæði töpuðu sínum leikjum í gær. Keflavík spilar gegn Haukum í Schenkerhöllinni í kvöld kl. 19:15.

KR-ingar byrjuðu leikinn aðeins betur en Njarðvíkingar vöknuðu fljótlega og komu sterkir til baka, staðan eftir fyrsta leikhluta 15-16. Annan leikhlutann vann Njarðvík með tíu stigum, en KR-ingar voru að hitta illa og Njarðvík nýtti sér það, spiluðu ákafa vörn og Atkinson nýtti sér líkamlegan styrk sinn inni í teignum og réði ríkjum þar. Atkinson er góð viðbót við Njarðvíkurliðið, þrælsterkur, les leikinn vel og hefur aðlagast liðinu fljótt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Njarðvíkingar héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og er vert að nefna frammistöðu Björns Kristjánssonar sem átti líklega sinn besta leik hingað til en Jóhann Árni Ólafsson var einnig mikilvægur í frákastabaráttunni og reif niður fráköst á mikilvægum tímapunktum. KR-ingar reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn og jafna en þeir komu einfaldlega ekki tilbúnir í þennan leik og spiluðu langt undir getu. 11 stiga sigur Njarðvíkinga staðreynd.

Björn Kristjánsson skoraði 24 stig, tók 5 fráköst og gaf 3 stoðsendingar, Jeremy Atkinson skoraði 18 stig og tók 10 fráköst og Jóhann Árni reif niður 11 fráköst, skoraði 2 stig og gaf 2 stoðsendingar. Hjá KR var Snorri Hrafnkelsson með 14 stig og Sigurður Þorvaldsson skoraði 14 stig og tók 10 fráköst.

Í Grindavík byrjuðu Snæfellingar betur og virtust ætla að standa í heimamönnum, staðan eftir fyrsta leikhluta 21-25, Snæfellingum í vil. Grindvíkingar gáfu svo hressilega í, jöfnuðu leikinn og náðu forystu sem jókst með hverjum leikhluta.

Hjá Grindavík voru fimm leikmenn með 13 stig eða meira. Lewis Clinch skoraði 25 stig og tók 6 fráköst, Dagur Kár Jónsson skoarði 18 stig, tók 3 fráköst og gaf 4 stoðsendingar og Ingvi Þór Guðmundsson skoarði 15 stig og tók 6 fráköst. Sefton Barrett var stigahæstur hjá Snæfell með 16 stig og 13 fráköst en Snjólfur Björnsson skoraði 11 stig og tók 4 fráköst.