Njarðvík lagði Hauka í VÍS-bikar karla
Mæta Keflavík í átta liða úrslitum um næstu helgi
Njarðvík vann sigur á Haukum í síðasta leik sextán liða úrslita VÍS-bikars karla í körfuknattleik sem var leikinn í Ljónagryfjunni í kvöld. Leikurinn var hörkuspennandi og hnífjafn en mesti munur var átta stig Haukum í vil (15:23). Njarðvík mætir næst Keflavík í Blue-höllinni þann 11. desember kl. 18:15 – nágrannaslagur af bestu sort.
Lisandro Rasio var öflugur í liði Njarðvíkur með tuttugu stig, ellefu fráköst og 28 framlagspunkta, þá lagði Logi Gunnarsson sitt af mörkum í síðasta leikhluta og sýndi að hann er ekki dauður úr öllum æðum. Logi stal boltanum tvívegis í fjórða leikhluta, átti eina stoðsendingu og setti niður einn þrist – hans helsta framlag var samt smitandi baráttugleðin.
Njarðvík - Haukar 88:84
(27:27, 25:24, 20:22, 16:11)
Njarðvík: Lisandro Rasio 20/11 fráköst, Nicolas Richotti 19, Dedrick Deon Basile 17/8 fráköst/8 stoðsendingar, Maciek Stanislav Baginski 14, Mario Matasovic 13, Logi Gunnarsson 3, Ólafur Helgi Jónsson 2/4 fráköst, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Bergvin Einir Stefánsson 0.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Ljónahöllinni og tók meðfylgjandi myndir.