Njarðvík-Keflavík: Risaslagur af bestu gerð
Risarnir og nágrannarnir Njarðvík og Keflavík mætast í toppslag Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld. Njarðvíkingar eru á toppi deildarinnar en Keflvíkingar geta saxað á forskot þeirra með sigri í kvöld og komist þannig upp að hlið KR og Grindavíkur í 2. sæti deildarinnar. Leikurinn hefst kl. 19:15 í Ljónagryfjunni og eru Suðurnesjamenn hvattir til þess að mæta á völlinn og styðja sitt lið til dáða.
Keflavík leika án Zlatko Gocevski sem sendur var heim á dögunum en Guðjón nokkur Skúlason verður í leikmannahópi Keflavíkur í kvöld og hann telur að sínir menn verði að fylgja fyrirmælum þjálfarans eigi sigur að nást.
„Lyklarnir að sigri Keflavíkur í kvöld verða nokkrir, við verðum að vera ákveðnir í varnaraðgerðum gegn stóru mönnunum þeirra og svo verða strákarnir að fylgja því leikskipulagi sem fyrir þá er lagt og þá förum við langt með að hafa þetta,“ sagði Guðjón. „Við ætlum að reyna að hafa Njarðvíkingana á tánum í kvöld og það skiptir einnig miklu máli að hitta vel,“ sagði Guðjón að lokum en það er aldrei að vita nema hann taki sig til og salli niður nokkrum þristum eins og honum einum er lagið.
Gunnar Þorvarðarson, aðstoðarþjálfari Njarðvíkinga, telur einu siguvon Keflavíkur vera að beita „Grindavíkuraðferðinni“ eins og hún er kölluð þegar Grindvíkingar sigruðu Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni með sannkallaðri þriggja stiga flugeldasýningu.
„Eina leið Keflavíkur til að brjóta okkur er að hitta vel fyrir utan, þ.e.a.s. ef við leyfum þeim það. Við munum mæta þeim framarlega á vellinum ef þeir ætla að stóla á þriggja stiga skotin sín,“ sagði Gunnar. „Uppskriftin að Njarðvíkursigri í kvöld verður sú að okkar menn mæti einbeittir til leiks og spili sinn leik. Dagurinn í dag er dagurinn í dag og það hefur alltaf verið svoleiðis í þessum viðureignum en við höfum sigrað Keflavík sex sinnum í röð og í kvöld er sá sjöundi í uppsiglingu,“ sagði Gunnar að lokum.