Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík-KA á Keflavíkurvelli
Miðvikudagur 16. maí 2007 kl. 10:14

Njarðvík-KA á Keflavíkurvelli

Njarðvíkingar leika sinn fyrsta heimaleik í 1. deild karla í knattspyrnu á föstudag. Leikurinn mun fara fram á Keflavíkurvelli þar sem Njarðvíkingar munu taka á móti KA. Leifur Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri KSD UMFN sagði í samtali við Víkurfréttir að þetta væri annar heimaleikur Njarðvíkinga á Keflavíkurvelli í hans stjórnartíð í Njarðvík.

 

Ástæðan fyrir því að Njarðvíkingar þurfa að leika á Keflavíkurvelli er sú að nýji völlur liðsins skammt frá Reykjaneshöll er ekki tilbúinn til notkunar. Vallarhúsið sem á að vera við völlinn er nokkuð á eftir áætlun en grasið sjálft er komið í þokkalegt stand.

 

Áætlað er að öll aðstaðan verði klár fyrir annan heimaleik Njarðvíkinga sem er gegn Grindavík þann 8. júní. ,,Það eru góðar horfur á því að allt verði klárt fyrir Grindavíkurleikinn 8. júní. Stúkan sem tekur ekki undir 350 manns verður sótt í fyrramálið og henni komið fyrir. Þetta smellur allt saman á síðustu metrunum,” sagði Leifur.

 

Árið 1995 léku Njarðvíkingar í 3. deild og þá þurftu þeir að nota Keflavíkurvöll sem heimavöll þar sem fjölliðamót var í gangi á Njarðvíkurvelli. ,,Það er eini heimaleikur Njarðvíkur á Keflavíkurvelli sem ég man eftir í minni stjórnartíð,” sagði Leifur.

 

Varðandi vallarhúsið við hinn nýja völl Njarðvíkinga þá hafa tafirnar aðallega stafað af því að efni til bygginar vallarhússins tafðist í sendingu á leið til landsins. ,,Við hefðum vitaskuld viljað hafa þetta tilbúið en það er ekkert við þessu að gera,” sagði Leifur. Leikur Njarðvíkur og KA á Keflavíkurvelli hefst á föstudag kl. 20:00.

 

[email protected]

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024