Njarðvík Íslandsmeistarar í unglingaflokki karla
Njarðvík eru Íslandsmeistarar í unglingaflokki karla eftir sigur gegn Breiðablik eftir hörkuleik sem fór fram í Ljónagryfjunni í gær, lokatölur leiksins voru 83-68.
Liðin buðu upp á spennandi fyrri hálfleik og Njarðvík leiddi þegar flautað var til hálfleiks á heimavelli sínum 41-37. Í seinni hálfleik náði Njarðvík að komast í góða forystu og gaf hana aldrei frá sér, munurinn var mestur 18 stig en Breiðablik náði ekki að komast aftur inn í leikinn eftir að Njarðvík náði að koma sér í góða stöðu í honum.
Njarðvíkingar voru með 27 stoðsendingar í leiknum gegn 11 hjá Blikum en Breiðablik var með 13 tapaða bolta og Njarðvík skoraði 12 stig beint eftir stolna bolta og Breiðablik einungis sex.
Kristinn Pálsson var maður leiksins en hann var með 33 stig, 17 fráköst og 8 stoðsendingar. Þá var Gabríel Sindri Möller með 13 stig og 8 stoðsendingar.