Njarðvík í undanúrslit eftir framlengingu
Alliyah Collier var hreint mögnuð þegar Njarðvík tryggði sig í undanúrslit VÍS-bikars kvenna eftri framlengdan leik gegn Fjölni. Collier var með 42 stig, sautján fráköst og 50 framlagspunkta.
Njarðvík - Fjölnir 89:88
(22:21, 24:18, 16:20, 15:18, 12:11)
Það vantaði ekkert upp á spennuna sem boðið var upp á í Ljónagryfjunni í dag þegar Njarðvíkingar slógu Fjölni úr leik í átta liða úrslitum bikarkeppni KKÍ. Leikurinn var jafn og spennan magnaðist stöðugt eftir því sem leið á leikinn. Njarðvík leiddi með sjö stigum í hálfleik en Fjölnir vann þann mun upp fljótlega og hélst leikurinn jafn út leikinn. Undir lok fjórða leikhluta jöfnuðu gestirnir leikinn með ævintýralegum þristi – þriggja stiga skot Fjölnis geigaði, þær náðu frákastinu og reyndu við annan þrist í kjölfarið sem steinlá. Staðan 77:77 og á þeirri rúmu mínúta sem var eftir af leiknum datt ekkert.
Í framlengingunni lentu Njarðvíkingar fjórum stigum undir (81:85) en sneru dæminu sér í vil og þegar fimm sekúndur voru eftir leit út fyrir að björninn væri unninn þegar Collier fékk tvö vítaköst í stöðunni 88:85. Hún hitti ekki úr fyrra skotinu en það seinna rataði rétta leið Njarðvík með fjögurra stiga forystu. Fjölniskonur voru hins vegar ekki alveg dauðar úr öllum æðum og smelltu niður þristi til að minnka muninn í eitt stig og enn voru þrjár, fjórar sekúndur til stefnu. Tíminn rann hins vegar frá þeim og Njarðvík er því komið í undarnúrslitin eftir magnaðan eins stigs sigur, 89:88.
Frammistaða Njarðvíkinga: Aliyah A'taeya Collier 42/17 fráköst, Lavína Joao Gomes De Silva 18/15 fráköst/7 stoðsendingar, Diane Diéné Oumou 15/15 fráköst/5 stoðsendingar, Kamilla Sól Viktorsdóttir 5, Vilborg Jonsdottir 4/5 stoðsendingar, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 3, Helena Rafnsdóttir 2, Krista Gló Magnúsdóttir 0, Júlía Rún Árnadóttir 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Eva María Lúðvíksdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Ljónagryfjunni og má sjá myndasafn úr leiknum neðar á síðunni.