Njarðvík í fallsætið eftir tap a móti ÍR
Njarðvík steinlá fyrir ÍR í Ljónagrifjunni þegar liðin mættust í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld. Þetta var fyrsti leikur Einars Árna og Friðriks með lið Njarðvíkur eftir að Sigurður Ingimundarson lét af stöfum. Njarðvík fundu sig aldrei í leiknum og réðu lítið við útlendinga í liði ÍR.
Leikurinn byrjaði af krafti og fyrstu 2 mínúturnar var leikurinn mjög jafn. Þegar lítið var búið af leiknum tróð Kelly Biedler yfir vítateginn með glæsibrag, fékk villu í leiðinni og setti Njarðvík út af laginu. ÍR tók þá afgerandi forskot og jókst munurinn á milli liðanna hægt og rólega en eftir fyrsta leikhluta var ÍR með 12 stiga forskot og staðan 24-36. Leikmenn hjá ÍR eins og James Bartolotta og Kelly Biedler voru á algjörlega á skotskónum og erfiðir viðureignar fyrir Njarðvíkinga.
Njarðvík mætti hreinlega ekki í annan leikhluta því liðið skoraði aðeins 2 stig á fyrstu þremur mínútunum en náðu loks að stöðva hraðlest gestanna og héldu þeim stigalausum næstu fjórar mínúturnar og minnkuðu forskotið úr 15 stigum niðrí 7 stig og endaði fyrri hálfleikur í stöðunni 38-45.
Bæði lið byrjuðu brösulega í seinni hálfleik og var ekki mikið að gerast. Gestirnir voru þó heitir í þriggjastiga skotunum og juku þar með forskot sitt á Njarðvík. Heimamenn 12 stigum á eftir ÍR þegar 30 mínútur voru liðnar, staðan 60-72.
ÍR mætti grimmari en áður og náðu forskotinu í 16 stig snemma í seinasta fjórðungi. Njarðvík datt þá í gírinn og var Guðmundur Jónsson að koma grænum vel aftur inn í leikinn með þriggjastiga körfum, aðeins 6 stig skildu liðin af þegar 2 mínútur voru eftir af leiknum. Guðmundur snéri sig svo á ökla og tók Rögnvaldur Hreiðarsson, dómari í leiknum leikhlé á meðan hlúið var að Guðmundi. Meiðslin urðu til þess að Guðmundur gat ekki lokið leik og það slæmt fyrir Njarðvík. ÍR landaði þar með glæsilegum sigri á Njarðvík og urðu lokatölur 89-97. Njarðvík eru þar með í 11. sæti deildarinnar sem er fallsæti, en jafnir ÍR á stigum.
Stigahæstir í leiknum voru Nemanja Sovic, leikmaður ÍR með 32 stig og James Bartolotta, nýr leikmaður ÍR einnig með 32 stig en báðir voru með 6 fráköst.
Stigahæstur hjá heimamönnum var Christopher Smith með 21 stig og 5 fráköst. Þar á eftir kom Jóhann Árni Ólafsson með 17 stig og 8 stolna bolta, Guðmundur Jónsson með 14 stig og Rúnar Ingi Erlingsson með 13 stig og 5 stolna bolta.
Dómarar leiksins voru Rögnvaldur Hreiðarsson og Jón Guðmundsson.
VF-Myndir/siggijóns - [email protected]
Kelly Biedler var öflugur í liði ÍR og átti svakalega troðslu.
Christopher Smith var stigahæstur í liði Njarvíkur.
Friðrik og Einar Árni náðu ekki sigri í sínum fyrsta leik með liðið.
Jóhann Árni Ólafsson hefur ekki verið að sýna sitt rétt andlit en var þó nærri því í kvöld.
Nemanja Sovic reynir hér að komast framhjá Guðmundi sem meiddist í lok leiksins.
Rúnar Ingi Erlingsson fer í gott sniðskot.