Njarðvík hafði betur gegn Grindavík
Þvert gegn öllum spám fyrir þessa leiktíð er lið Njarðvíkur komið í toppslaginn í Iceland Express deildar kvenna. Þar eru einnig Hamar og Keflavík sem þó eiga leik til góða á Njarðvíkinga. Njarðvík tók á móti Grindavík í fyrsta leik fimmtu umferðar í gærkvöldi og lagði granna sína úr Röstinni, 67-54.
Grindavík hafði frumkvæðið í upphafi leiks en í stöðunni 13-15 fyrir Grindavík tók Dita Liepkalne góðan endasprett undir lok fyrsta leikhluta og kom Njarðvíkingum í 18-15. Hún hélt uppteknum hætti í öðrum leikhluta og Grindvíkingar voru í mesta basli með að halda henni í skefjum.
Njarðvíkingar leiddu með 10 stigum í hálfleik, 39-29. Nokkuð lifnaði yfir Field í Njarðvíkurliðinu og Clark í Grindavíkurliðinu í síðari hálfleik en þær stöllur höfðu verið ansi rólegar í fyrri hálfleik. Grindvíkingar náðu að minnka muninn í 7 stig 48-41 en Njarðvík var ekkert á því að hleypa þeim of nærri sér og juku forskotið á ný. Í lok þriðja leikhluta var staðan 56-43 fyrir Njarðvík
Grindvíkurkonur héltu áfram að berjast en náðu ekki að rjúfa múrinn. Lokatölur urðu því 67-54 fyrir Njarðvík.
Stigaskor:
Dita Liepkalne fór mikinn í liði Njarðvíkinga, skoraði 24 stig, hirti 16 fráköst og átti 7 stolna bolta. Shayla Fields skoraði 23 stig.
Í liði Grindavíkur var Berglind Anna Magnúsdóttir stigahæst með 13 stig og 5 fráköst. Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir skoraði 11 stig og hirti 6 fráköst
Sjá má nánari umfjöllun um leikinn á www.karfan.is
Mynd/karfan.is – Berglind Anna Magnúsdóttir í kröppum dansi umkringd leikmönnum Njarðvíkur.