Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík bikarmeistari í 10. flokki karla
Laugardagur 1. mars 2008 kl. 13:54

Njarðvík bikarmeistari í 10. flokki karla

Njarðvík og Hamar/Þór Þorlákshöfn mættust í bikarúrslitum í 10. flokki karla þar sem Njarðvíkingar fóru með sigur af hólmi í spennandi og skemmtilegum leik. Lokatölur leiksins voru 55-51 Njarðvíkingum í vil sem fóru á kostum í frákastabaráttunni sem var grunnurinn að sigri þeirra í leiknum. Bikarhelgi yngri flokka í körfuknattleik fer fram í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í dag og á morgun.

 

Hamar/Þór hófu leikinn af krafti og náðu að slá græna út af laginu með pressuvörn allan völl sem síðan varð að 2-3 svæðisvörn við körfu þeirra. Þekkt afbrigði úr úrvalsdeildinni en þessum aðferðum hafa Keflvíkingar beitt um árabil með góðum árangri.

 

Hamar/Þór leiddi 6-14 eftir fyrsta leikhluta og Njarðvíkingar ískaldir þar sem skotin þeirra vildu ekki niður. Njarðvíkingar náðu að jafna metin í 21-21 þegar um ein mínúta var til hálfleiks en HÞ setti niður góða þriggja stiga körfu og leiddu 26-29 í leikhléi og spennandi síðari hálfleikur í vændum.

 

Hægt og bítandi komust Njarðvíkingar yfir í síðari hálfleik og fóru sjálfir að leika svæðisvörn sem virkaði vel gegn sóknum HÞ sem fyrir vikið urðu bitlausari. Styrmir Fjeldsted var svakalegur í teignum fyrir Njarðvík á báðum endum vallarins. Pilturinn reif niður 19 fráköst í dag og gerði 10 stig og gaf grænum oftsinnis annan möguleika á því að skora.

 

Endaspretturinn var æsispennandi þar sem Njarðvíkingar reyndust sterkari og skynsamari. Léku langar sóknir og pössuðu vel upp á boltann. Styrmir Fjeldsted var valinn maður leiksins úr liði Njarðvíkur og Oddur Ólafsson var valinn maður leiksins úr liði HÞ með 15 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar.

 

Tölfræði leiksins

 

VF-Mynd/ [email protected]Kátir Njarðvíkingar eru bikarmeistarar í 10. flokki karla í körfuknattleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024